154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[23:10]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Ég vil þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir þetta innlegg í umræðuna. Auðvitað skal ég vera fyrstur manna til að játa það að hv. þingmaður er talsvert betur að sér í margri talnarununni í fjárlögum heldur en ég og á auðveldara með að glöggva sig á mörgu af þessu. Ég tek hins vegar undir það sem hefur verið sagt hérna í þessari umræðu og er kannski að einhverju leyti undirliggjandi í því sem hv. þingmaður er að nefna. Okkur fjölgar og það hlýtur að þýða að það er dýrara að reka kerfin okkar. Það liggur alveg í hlutarins eðli að það er það upp að vissu marki. Ég er hins vegar ekkert endilega á því að þetta eigi að vera einhver sérstakur fasti, þ.e. útgjöld og tekjur sem hlutfall af landsframleiðslu. Þetta getur auðvitað sveiflast á milli ára eins og ég reikna með að hafi væntanlega verið.

Ég er frekar á því að vandi okkar í þessari fjárlagagerð, eða vandi ríkissjóðs, sé sá að það er tilhneiging til þess að eyða of miklu, þ.e. þetta er frekar útgjaldavandi heldur en tekjuvandi. Mig langar kannski að hafa almennt þau orð uppi að það er bara skylda okkar á hverjum tíma að reyna að fara eins vel með og við getum og það er skylda okkar að gera allt sem við getum til þess að minnka útgjöld til þess að ekki þurfi endalaust að vera að auka skattbyrði á fólk og að standa í einhverjum tekjuöflunum sem koma samfélaginu illa. Ég veit eiginlega ekki alveg hvernig ég á að svara þessu öðruvísi. Við getum ekki gert ráð fyrir því að tekjur og útgjöld séu einhver fasti til lengri tíma. Þetta sveiflast. Ég vil bara minna okkur á þessa frumskyldu, að þó að við getum rökstutt einhvern útgjaldavöxt með vísan í að þjóðinni sé að fjölga og kerfin okkar þurfi meira fríar það okkur ekki frá þeirri ábyrgð að reyna að fara betur með peningana á hverjum tíma. Þar hefur okkur ekki tekist nægjanlega vel upp að mínu mati.