154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

aðgerðir stjórnvalda í málum aldraðra og öryrkja.

[10:48]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrirspurnina. Ég vil koma aðeins inn á húsnæðismál líka vegna þess að þau skipta mjög miklu máli þegar við erum að tala um stöðu þessa viðkvæma hóps sem örorkulífeyrisþegar eru í samfélaginu. Þar hafa verið stóraukin framlög, m.a. til almenna íbúðakerfisins þar sem við erum að horfa á að á næsta og þarnæsta ári verði mun fleiri íbúðir byggðar í því kerfi. Það skiptir máli. Líka breytingar sem eru að verða á húsnæðisbótunum.

Varðandi stafrænu málin er í gangi vinna á milli ráðuneytis míns og m.a. fjármála- og efnahagsráðherra. Það er verið að horfa til ákveðins umboðsmannakerfis sem var hafist handa við í október í fyrra og verið að vinna áfram með það til að reyna einmitt að tryggja öllum sem þurfa á rafrænni þjónustu að halda, sem er nú bara eiginlega samfélagið allt, aðgang að þessu. Ég vonast til þess að við getum séð fram á það að það verði tryggt fyrir þá hópa sem hv. þingmaður nefnir.