154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

238. mál
[11:41]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, ég held að það sé auðvelt að viðurkenna að mistök hafi einhvers staðar verið gerð. Það er alveg ljóst. Við viljum ekki vera á þeim stað sem við erum núna og við þurfum að taka á því. Hv. þingmaður endaði ræðu sína á því að tala eins og það yrði gert hér. Þar hef ég svolitlar efasemdir. Stóra málið er auðvitað hvað gerist í skólastofunni, hvaða tækifæri, hvaða aðstoð og hvaða tól kennarinn hefur til að miðla þekkingu áfram til nemandans. Ég held að við hér getum öskrað okkur hás um alls konar aðferðir í því en á endanum er það sem gerist í skólastofunni sem skiptir máli. Mér hefur fundist nálgun hæstv. ráðherra á þennan málaflokk vera mjög góð hvað það varðar að það þarf breiða samstöðu um breytingar. Við þurfum að ræða við mismunandi hagsmunahópa og þar eru kennarar auðvitað stór þáttur en ekki síður kennaranámið, menntavísindasvið, starfsþróun kennara, námsgagnagerðin og svo mætti lengi telja.

Hv. þingmaður hefur talað mikið fyrir bókstafa-hljóðaaðferðinni. Veistu það, virðulegur forseti, að ég veit það ekki. Ég er menntaður viðskiptafræðingur og ég bara veit ekkert hvort þetta sé eina rétta leiðin til að kenna börnum að lesa. Ég veit aftur á móti að ég er þriggja barna móðir og tvö af mínum börnum eru lesblind. Það var töluvert mikið átak að kenna þeim að lesa. Ég var stöðugt að berjast við skólann og sagði: Það hljóta að vera til aðrar aðferðir. Ég hef farið út fyrir skólakerfið að leita að aðferðum til að kenna lesblindum börnum að ná tökum á lestri. Ég er því sannfærð um það sem stendur einmitt í okkar lögum og í aðalnámskrá, að það á að mæta hverju barni þar sem það er statt. Það er í rauninni töfraverkið sem kennarinn þarf að vinna en hann þarf að fá þann stuðning og þau tæki og tól til að gera það, að hjálpa barninu að ná tökum á þessu. Það getur vel verið að það sé með bókstafa-hljóðaaðferðinni. Þarna vil ég fá menntavísindaráð. (Forseti hringir.) Ég hef talað fyrir því að það sé norrænt og ég held að það sé betra, svo að ég svari spurningu hv. þingmanns frá því áður. Ég held að það gefi okkur ákveðna vídd og breidd til að fá bestu mögulegu þekkingu í þessum efnum.