154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

238. mál
[12:23]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er breytingartillaga við frumvarp til laga um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu sem lýtur að því að sett er inn í frumvarpið ákvæði um vísindaráð á sviði menntamála sem yrði hinni nýju stofnun, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, til ráðgjafar sem og ráðherranum. Ég tel að hér sé um mjög mikilvægt mál að ræða, ekki síst í ljósi niðurstöðu PISA-könnunarinnar varðandi hæfni 15 ára nemenda í lestri, náttúruvísindum og stærðfræði eða læsi á þessum sviðum. Við verðum að breyta um kúrs og fara að byggja á fremstu vísindum hvað þetta varðar, stofnanavæða það að ráðherrann hafi alltaf aðgang að fremstu vísindum og líka hin nýja stofnun. Við getum ekki verið að horfa alltaf til hagsmunanna. Ég get líka vísað til þess að formaður allsherjar- og menntamálanefndar hefur talað fyrir því, bæði í ræðustól hér í störfum þingsins og í umræðunni hér við 3. umræðu um frumvarp til laga um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, að hafa norrænt vísindaráð. Ég tek alveg heils hugar undir það en ég tel líka mikilvægt að við höfum okkar eigið vísindaráð af því að öll lönd hafa sitt eigið skólakerfi og við eigum íslenskt skólakerfi sem er hluti af hinu norræna. Við þurfum bæði.