154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[14:09]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Það er að verða lykilbreyta um það hvernig þér vegnar í lífinu hvenær þú komst inn á húsnæðismarkað. Í dag fer það að verða ekki hvenær þú komst inn á húsnæðismarkað heldur: Komstu inn á húsnæðismarkað eða ertu fastur á leigumarkaði, áttu bakland sem getur hjálpað þér inn? Við sjáum tölurnar um hvernig erfðafjárskatturinn er að þróast, sem er auðvitað viðleitni þeirra sem geta til þess m.a. að liðsinna í þessu samhengi.

Ég er einlæglega þeirrar skoðunar núna að fljótvirk aðgerð gagnvart verðbólgu og til þess að liðka fyrir á húsnæðismarkaði væri virkara regluverk Airbnb og reglur um gistirými í þéttbýli, sem sagt byggingu á gistirými í þéttbýli þannig að fólk sem kemur hingað til lands í byggingarvinnu vinni ekki allt við það að byggja upp hótel.

Ég nefndi áðan tölurnar um fjölda ferðamanna á íbúa á Íslandi í samanburði við OECD, fjölda starfandi í greininni í samanburði við OECD og allt er þetta til merkis um ótrúlega viðreisn ferðaþjónustunnar eftir heimsfaraldur. Við gleðjumst auðvitað öll yfir „Viðreisninni“, haha. En það þarf líka að horfa á þetta sem ég nefndi með hagvöxtinn og framleiðni. Greinar eru misjafnar um það hver framleiðnin er. Ferðaþjónusta er lágframleiðnigrein og það má setja þetta í samhengi við gagnrýni sem t.d. hefur komið fram hjá BHM um hvernig háskólamenntun á Íslandi skilar sér verr til launa en víða annars staðar. Þarna ertu líka að horfa á atvinnustefnu og hvernig hún skilar sér inn hvað varðar framleiðni, hagvöxt, lífsgæði, lífskjör og það markmið okkar að fólk mennti sig og að fólk sem fer utan til náms velji að koma aftur heim, að fólk sem ekki er frá Íslandi og velur sér að flytja hingað sækist eftir þannig störfum að laun og kjör séu góð og við séum að byggja upp lífskjör og lífsgæði í einhverju heildarsamhengi hlutanna en ekki bara að það sé tilviljunarkennd niðurstaða sem ræður því að ein grein stækkar en aðrar ekki.