154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[14:43]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er rétt að það eru margir að eiga við erfiðan vaxtakostnað og það hefur komið fram í ræðum mínum hér í fjárlagaumræðunni að sérstaða bænda í þessu öllu er náttúrlega rekstrarformið, að heimilið og reksturinn er eiginlega bara búið, er bara á kennitölum bændanna að langmestu leyti. Ég hef líka komið inn á ferlið, eins og ég var að ljúka við að segja í ræðu minni, hvað þetta er margslunginn vandi. Raunverulega byrjar þetta að einhverju leyti í Covid að aðfangakeðjan byrjar að bresta og sérstaklega síðan við innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022, þá hækkaði t.d. áburðurinn um 110–120%, kjarnfóðrið yfir 30%. Það verður að geta þess að í vegnu meðaltali í búunum, í rekstrinum, þá hefur hækkun kjarnfóðurs um 30% meira vægi heldur en 110% í áburðinum. Þarna komum við bara alveg með nýjan þátt sem er aukalega ofan á allt annað.

Það er í þessum tillögum, eins og ég ætlaði að koma inn á í fjáraukaumræðunni — er náttúrlega hluti af þessum tillögum sem hafa verið boðaðar núna varðandi þessar 1.600 milljónir til 982 býla, frekar en bænda, minnir mig að sé orðað. Þetta er hluti af því sem verið er að ræða þar, þ.e. vaxtakostnaðurinn. Það er verið að fást við og verið að einbeita sér þarna að yngri bændum, þeim sem hafa verið að fjárfesta mikið síðustu kannski 10, 12, 13, 14 árin. Það er svona það sem mest er verið að fást við þar. Ég er ekki með gögnin eða hversu stór hluti nákvæmlega þetta er af málinu, ég verð svolítið að treysta á þennan ráðuneytisstjórahóp enn sem komið er. Við eigum eftir að fá fá dýpri kynningar í fjárlaganefnd á stöðu þessara mála. Ég fagna að sjálfsögðu tillögum Samfylkingarinnar um að gera eitthvað fyrir bændur en ég get ekki metið 2 milljarðana eða það sem ráðuneytisstjórarnir eru að koma með, nákvæmlega þær tölur.