154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[14:55]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hún sé bara töluverð. En við erum að verja ákveðið umhverfi. Ég fór í langri ræðu í gegnum þetta nákvæmlega, þróun umhverfisins, í raun 30 ár aftur í tímann, þessar miklu breytingar sem urðu 2004 varðandi mjólkurframleiðsluna og hvernig hún var kvótasett og þessi hagræðingarkrafa sem var sett á 2004, 2005, sem hefur verið kölluð svona 1% vatnshalli, það er 1% hagræðing á ári sem hefur í raun verið í 20 ár. Það er kannski um 20% hagræðing á ekki lengri tíma sem er náttúrlega gríðarlega mikið. Svo er það þessi bráðavandi sem er núna, þar kemur inn stríðið og bara þetta umhverfi sem er, háir stýrivextir, mikil fjárbinding á móti lítilli veltu eins og í kúabúskapnum sem aftur verður að hluta til vegna aðbúnaðarkrafna o.fl., miklar kröfur um aukna framlegð, stækkun búanna, róbóta, að nýta tæknina, og svo aðbúnaðurinn eins og ég segi. Það verður gríðarleg fjárbinding með betri fjósum, róbótum og allri tækni sem fylgir. En áfallaþolið er bara ekki meira en þetta í kerfinu í dag. Það er kannski það sem er á ábyrgð ríkisstjórnar og okkar hér á þingi að ræða. Við þurfum að átta okkur á því. Eins og ég sagði í andsvari við góðri spurningu hér á undan þá er núna skýrsla ráðuneytisstjóra komin fram, nú höfum við tækifæri fyrir umfjöllun um fjáraukann í fjárlaganefnd, áður en við tökum fjáraukann út, og við erum að fara að ræða þessi mál og það er gríðarlega mikilvægt að við fáum góðar upplýsingar frá sérfræðingum á þessu sviði. Við getum náttúrlega kallað til okkar sérfræðinga sem geta sagt okkur betur og ofan í grunninn hvert vandamálið er og hvernig mál standa.