154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[14:57]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég vil hér í annarri ræðu minni í 2. umræðu við um þetta fjárlagafrumvarp halda áfram umfjöllun minni um nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar. Ég var komin nokkuð áleiðis í gær, á bls. 8 nánar tiltekið, af 31 bls., og ég var kominn að stöðu landbúnaðar og bænda. — Voðalega er skrýtið að hafa púltið svona lágt. Mér líður svona eins og Gúllíver í Putalandi.

En svo ég haldi áfram, ég kláraði síðustu ræðu mína á að ræða áform um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka en fer núna yfir í sjónarmið er varða landbúnað og erfiða stöðu bænda. Með leyfi forseta segir hér í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar:

„Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 198 millj. kr. til aðgerða sem eiga að stuðla að auknu kynbótastarfi og innviðauppbyggingu, ásamt beinum stuðningi við kornframleiðslu, í samræmi við áherslur aðgerðaáætlunarinnar Bleikir akrar.“

Mig langar að nefna og halda til haga því sem hér er sagt varðandi kornframleiðslu. Mér þykir það bara hið besta mál að hér á landi verði aukning í kornframleiðslu og gott að stutt sé við þá þróun. En mér hafa þótt áherslur hæstv. matvælaráðherra vera með þeim hætti að óskastaðan væri sú að allir bændur landsins sem ekki heltast alveg úr lestinni stundi kornrækt og helst ekkert annað, í öllu falli ekki neina kjötframleiðslu. Þó að það sé ágætt að þessi stuðningur kom fram þá vil ég gjalda varhuga við þeirri ofuráherslu sem matvælaráðherra leggur á þennan þátt landbúnaðar. Síðan segir áfram, með leyfi forseta:

„Landbúnaðurinn glímir við einstaklega erfitt rekstrarumhverfi, sérstaklega í framhaldi af innrás Rússa í Úkraínu, þar sem stórhækkað verð á ýmsum aðföngum landbúnaðar hefur gjörbreytt öllum rekstrarforsendum. Fordæmalaus hækkun hefur orðið á áburði, orku, kjarnfóðri og ýmsum öðrum aðföngum til búrekstrar sem ekki hefur verið mögulegt að velta út í almennt verðlag. Bændur hafa nánast enga möguleika til að velta slíkum byrðum út í almennt vöruverð.

Þá eru verulegar hækkanir á fjármagnskostnaði þar sem landbúnaður hefur m.a. þurft, vegna opinberra aðgerða um bættan aðbúnað búfjár, að standa í miklum fjárfestingum.“

Þetta er það sem ég vildi leggja sérstaklega áherslu á hér. Við verðum að gæta hófs hér í þinginu að leggja ekki sýknt og heilagt á aðbúnaðarkröfur, fjárfestingarkröfur og íþyngjandi regluverkskröfur sem leggjast á atvinnulífið, í þessu tilviki bændur og bú landsins. Sá kostnaður er síðan í flestum tilvikum á endanum borinn af heimilum landsins sem endanlegum kúnna. En í tilfelli bænda, eins og hér kemur réttilega fram, hafa þeir nánast enga möguleika til að velta slíkum byrðum út í almennt vöruverð. Það er síðan önnur umræða og stærri með hvaða hætti þau mál geta þróast. En ég vil bara hnykkja á því að við sem hér störfum verðum að gæta okkur hófs. Ég fór inn í lítið svona mál í fyrirspurnatíma fyrr í dag þar sem ég hef áhyggjur af því að í raun agnarsmá breyting sem fjármálaráðherra leggur til í svokölluðum bandormi muni hafa umtalsverða handavinnu og ráðgjafarkostnað í för með sér fyrir þau fyrirtæki og heimili sem þurfa að aðlaga háttalag sitt vegna þess. Það sem ég hef áhyggjur af er að það liggi engin raunveruleg greining á bak við það í hverju svona íþyngjandi regluverksbreytingar felast.

Áfram varðandi fjárfestinguna og fjármagnskostnaðinn segir hérna, með leyfi forseta:

„Í mjólkurframleiðslu og fleiri búgreinum er ekki val um að fresta fjárfestingum, vegna settra laga og reglna stjórnvalda.“

Þetta er akkúrat það sem ég var að segja hér á undan. Við verðum að gæta hófs í þessum efnum. Það eru þannig dæmi sem bændur landið um kring hafa nefnt í mín eyru að maður veltir því fyrir sér hvort engin skynsemistenging við raunheima sé í gangi stundum þegar regluverkið er formað. Það liggur auðvitað liggur fyrir að sá hluti stéttarinnar, sá hluti bænda sem hefur þurft að fjárfesta og ungt fólk sem er nýkomið til þeirra verka í landbúnaði, hefur fundið sig í mjög alvarlegri stöðu.

Ég held að hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson hafi komið inn á þetta í ræðu sinni hér á undan en fyrstu viðbrögð við skilaboðum ráðherranefndarinnar sem hæstv. matvælaráðherra Svandís Svavarsdóttir hefur lagt mikla trú á og traust hvað það varðar að koma með útfærðar tillögur sem laga stöðu bænda að einhverju marki hið minnsta til skamms tíma — formaður Samtaka ungra bænda lýsir þessu sem plástri á opin beinbrot. Varaformaður Bændasamtakanna — þetta eru ekki hennar orð en efnislega er þetta ekki upp í nös á ketti og þar fram eftir götunum. Svona eru lýsingarnar og viðbrögðin. Áhyggjur mínar eru þess eðlis að það sé í raun verið að segja pass, að það sé verið að segja við bændur landsins: Nú þurfið þið að herða sultarólina enn. Við höfum gengið svo glannalega um dyr ríkisfjármálanna að Seðlabankinn sér ekki forsendur til að lækka stýrivexti þannig að þið berið kostnaðinn áfram af þeim fjárfestingum sem regluverkið hefur þvingað ykkur til að standa í. Þið verðið bara að græja þetta, þið verðið bara að herða sultarólina enn um sinn, vinna 150% utan bús en ekki 100% eins og verið hefur og svo kannski skoðum við þetta í næsta hring. Þetta eru dálítið skilaboðin sem er verið að senda, því miður. Ég vona bara — þótt ég sé hóflega bjartsýnn á það sem sagt er í lokasetningu þessa greinarkafla í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn á von á því að leggja fram breytingartillögur á þessu málefnasviði við 3. umræðu frumvarpsins.“

Það er nú ekki langt í að 3. umræða eigi sér stað og miðað við hversu erfitt var að draga fram einhverja sýn á líklega nálgun hér í fyrradag þá er sennilega best að notast við þá nálgun að segja: Ég trúi því þegar ég sé það á pappír frá meiri hluta nefndarinnar að þarna verði spyrnt við fótum með þeim hætti sem a.m.k. bjargar í horn, því að það væri miklu hreinlegra að segja bara við bændur landsins: Við ætlum ekki að stíga inn í þetta mál. Þá gætu þeir skipulagt undanhaldið. Ef það er ekki raunverulegur vilji til að styðja við matvælaframleiðslu hér á landi, ekki raunverulegur vilji til að styðja við matvælaframleiðslu af hendi þessarar ríkisstjórnar, segið það þá bara skýrt. Ekki draga menn á asnaeyrunum misseri eftir misseri.

Mig langar næst að segja nokkur orð um ferðaþjónustuna sem er næsti kafli í nefndarálitinu. Það er sagt hér, með leyfi forseta:

„Í nefndaráliti meiri hlutans um fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028 var bent á að gagnlegt yrði að ráðast í greiningu á tekjum ríkisins af mismunandi tegundum ferðamanna, eftir ferðamáta til og frá landinu, ferðamáta innan lands og vali á gistingu.“

Þetta er allt satt og rétt en mér vitanlega hefur ekkert verið gert í þessu enn sem komið er. En það er þó hægt að benda á ráðstefnu samtaka aðila í ferðaþjónustu sem fór fram á Grand hóteli milli 8:30 og 10:30 í morgun þar sem var fjallað um skattspor ferðaþjónustunnar. Ég held að það gerði mörgum þingmanninum gott að reyna að átta sig á samhengi hlutanna varðandi þær miklu tekjur og umfang sem ferðaþjónustan færir hingað til lands. Og þó að það sé kannski tilefni fyrir aðra umræðu þá held ég að umræðan um virðisaukaskattsstig ferðaþjónustunnar sé á einhverjum misskilningi byggð varðandi rökræðurnar um það hvort ferðaþjónustan skuli undirorpin 11% eða 24% virðisaukaskatti.

Næst er hér komið að almannaheillafélögum. Þar er verið að fjalla um m.a. almannaheillafélög sem eru björgunarsveitir að byggja björgunarmiðstöðvar og sambærileg verkefni þar sem eðlilega koma inn beiðnir um niðurfellingu virðisauka eða styrk sem nemur samsvarandi upphæð. Þetta er eitthvað sem maður hefði haldið að væri hægt að leysa með haganlegum hætti hratt og vel, en hjá þessari ágætu ríkisstjórn, eins og hún er samsett, þá fer þetta — ég held að vilji allra standi til þess að afgreiða mál og klára með góðum hætti fyrir almannaheillafélög. Hér segir, með leyfi forseta, í áliti meiri hluta fjárlaganefndar:

„Til meðferðar á Alþingi hafa verið frumvörp til laga þar sem lögð er til endurgreiðsla virðisaukaskatts af framkvæmdum hjá almannaheillafélögum en hafa ekki náð fram að ganga.“ — Það er eins og ríkisstjórnarflokkarnir hafi ekki meiri hluta. — „Flækjustig á útfærslu slíkra laga hefur verið eitt það helsta sem hefur staðið í vegi.“

Sko. Hæstv. ríkisstjórn er búin að vera hér í þessu tjónabandi sínu í á sjöunda ár. Það að ekki sé komin brúkleg lausn á máli eins og þessu, þar sem allir segjast vera sammála, þýðir auðvitað ekkert annað en það að ríkisstjórnin hefur ekki einlægan og raunverulegan vilja til að leysa þessi mál til heilla og til að létta undir með almannaheillafélögunum sem í svona verkefnum standa. Miðað við það sem er nú leyst með ýmiss konar krúsidúllum í lagasetningu dagana langa hérna þá bara trúi ég því ekki að þetta mál sé enn á þeim stað að meiri hluti fjárlaganefndar telji ástæðu til þess að setja það inn í nefndarálit sitt við 2. umræðu fjárlaga að þetta sé bara allt svo flókið og þetta sé allt í nefnd og það sé búið að margleggja fram frumvarp þessa efnis en það strandi alltaf af því að það sé svo flókið. Ákvarðanatökufælnin getur verið snúin við að eiga.

Næst ætla ég að segja nokkur orð um fjármögnun háskóla. Hér segir, með leyfi forseta:

„Ráðgert er að árangurstengdri fjármögnun verði komið á árið 2025.“

Á undan því er fjallað um þessa breyttu nálgun á fjármögnun háskólanna sem fyrirhuguð er. Ég held að þetta sé heilt yfir hið ágætasta mál, að taka þessa nálgun á fjármögnun háskólanna og bíð spenntur að sjá hvernig útfærslunum verður háttað þegar þær hafa verið teiknaðar upp í endanlegu formi. En ég vil bara í ljósi umræðu síðustu tveggja daga um niðurstöður PISA-könnunar, áhrif af styttingu stúdentsprófs því tengd og fleiri tengd mál varðandi menntun á Íslandi — þá verðum við auðvitað að fara í einhvers lags naflaskoðun, heildarendurskoðun á því hvernig við erum að nálgast menntamálin því að það er þyngra en tárum taki að við séum í raun að bregðast okkar yngsta fólki, börnunum í skólunum og þá sérstaklega grunnskólunum, miðað við þær niðurstöður sem leiddar eru fram í þessari könnun. Það er algjört hneyksli að skólastjórnendur fái ekki einu sinni að glöggva sig á hvar þeirra skólar standi og hvar skórinn kreppir og það hlýtur að verða tekin ákvörðun um að hverfa frá því fyrirkomulagi leyndarhyggju í þessum efnum. Það gerir börnunum sem mestu máli skipta í þessu samhengi verst af öllum sem þessari ákvörðun tengjast. En bara ítreka að ég er áhugasamur og held að þetta sé jákvæð þróun varðandi fjármál og fjármögnun háskólanna og fylgist spenntur með hvernig útfærslan verður þegar á reynir.

Næst er fjallað um menningu, listir, íþrótta- og æskulýðsmál. Þar vil ég bara minna á að kökunni er nokkuð misskipt hvað varðar umfang og framleiðslu og aðgengi að menningarsýningum og -efni ef við berum saman suðvesturhornið annars vegar og landsbyggðina hins vegar og eins og segir hér þegar er talað um viðbótarfjárveitingar til ýmissa verkefna á landsbyggðinni:

„Ekki er um háar fjárhæðir að ræða en þær geta skipt sköpum í rekstri safna og menningarstofnana.“

Það er auðvitað rétt að þegar menn hafa verið sveltir lengi þá munar um allt súrefni sem fæst. En það sem ég er kannski fyrst og fremst að segja hérna er að við þurfum að horfa á þetta dálítið heildstætt og ef niðurstaðan verður sú að hafa hér um bil alla þá menningarstarfsemi sem ríkið styður við hér á höfuðborgarsvæðinu þá er líka eins gott að menn tryggi gott aðgengi að því um flugvöllinn í Vatnsmýrinni og aðrar þær samgönguæðar sem hingað liggja og geri landsbyggðarfólki kleift að njóta þessara menningarviðburða svo að við finnum okkur ekki í einhverju samfélagi elítisma gagnvart þeim sem búa á höfuðborgarsvæðinu og miklu þrengri stöðu þeirra sem búa úti á landi til að njóta slíkra uppákoma.

Það er hér kafli sem fjallar um útgjöld til heilbrigðismála og ellilífeyris sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Á Íslandi eru útgjöld til heilbrigðismála um 9,7% af VLF (árið 2021) sem er örlítið hærra en í Finnlandi en lægra en á öðrum Norðurlöndum. Þar er Noregur með 10,1%“ — 0,4% hærra en hér heima — „og Svíþjóð fer upp í 11,4%. Í þeirri umræðu þarf að taka tillit til þess að Íslendingar eru enn sem komið er töluvert yngri þjóð en aðrar Norðurlandaþjóðir. Hlutfall þeirra sem eru 65 ára og eldri er um 15% hérlendis en á bilinu 18–23% í hinum löndunum. Að teknu tilliti til þessa er hlutfallið svipað á öllum Norðurlöndunum.“

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta hér er að við verðum að hafa í huga í allri umræðu um fjármögnun og kostnað við þessi stærstu velferðarkerfi okkar, hvort sem það er heilbrigðiskerfið eða félagslegu kerfin, að við verðum að hafa kjark til að stokka upp, endurskoða kerfin, laga kerfin, bæta þau þegar tilefni er til. Lausnin felst ekki alltaf í viðbótarfjárveitingu. Ég held að það detti t.d. engum raunverulega til hugar, a.m.k. engum sem hefur skoðað tölurnar, að vandamálið sem orsakar slælega niðurstöðu í PISA-könnuninni sem var hér til umræðu í gær og fyrradag, sé vanfjármögnun grunnskólakerfisins, sem kostar í dag um 200 milljarða. Það getur engum dottið það til hugar. Það er eitthvað annað og það sama þurfum við alltaf að hafa í huga varðandi heilbrigðismálin og félagslegu kerfin. Við verðum að hafa kjark til að laga þau þannig að við fáum meira fyrir minna, getum gert meira fyrir fleiri með því að ná að hafa kjark til þess að endurskoða kerfi sem hafa kannski staðnað og einhvern veginn hlaðið utan á sig kostnaði og eru ekki að virka. Það er nú það sem ég vildi sagt hafa í þessu samhengi. Ég held að það hafi verið fyrrverandi aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, sem þá var Svandís Svavarsdóttir, sem sagði efnislega að það væri hægt að setja endalausan pening inn í heilbrigðiskerfið en það myndi ekki lagast. Þjónustan myndi ekki batna á meðan menn löguðu ekki kerfið. Ég held að það sé hárrétt í þessu samhengi.

Hér er búið að tæpa á einu og öðru varðandi það sem kallast áherslumál og ábendingar meiri hluta fjárlaganefndar og ég hef fengið mikla hvatningu til að fara í gegnum þær 24 bls. sem eftir eru af nefndarálitinu skref fyrir skref en ég ætla að hlífa sjálfum mér og þingheimi við því. Það eru skýringar á breytingartillögum á gjaldahlið sem er auðvitað mjög spennandi og skemmtileg lesning en þar sem þingstörfin verða að fá að mjakast áfram þá ætla ég að sleppa okkur við þá yfirferð. En ég bara vona að hér milli 2. og 3. umræðu, þegar málið gengur til nefndar, að þær tillögur sem meiri hlutinn kemur með, raunverulega koma þær auðvitað frá fjármálaráðherra og ríkisstjórninni, en að þær tillögur sem þaðan koma og búið er að tilkynna að komi, bæði vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga — og hér er nefnt að gerðar verði tillögur til breytinga gagnvart rekstrarumhverfi bænda og svona hér og hvar. En það sem ég hef kannski gagnrýnt helst er hversu erfitt hefur verið að tosa út sýn stjórnarmeirihlutans á það hvar helst verði stigið til baka á útgjaldahliðinni á móti þeim útgjöldum sem bætt verður í á milli umræðna. Ég held að fyrsti tíminn væri bestur hvað það varðar að fá þau sjónarmið fram til skrafs og ráðagerða og það eru eflaust einhverjar hugmyndir hér í salnum sem gætu hjálpað ríkisstjórninni að ná tökum á þeim útgjaldavexti sem virðist vera linnulaus og stjórnlaus ár eftir ár.

Ég ætla að láta þetta duga í þessari ræðu og óska hv. fjárlaganefnd góðs gengis við að vinna málið áfram á milli umræðna.