154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:34]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Í fyrstu ræðu minni í gær tók ég það fram að ég ætlaði að vera stuttorð og ætlaði einungis að halda eina ræðu. Hins vegar finn ég mig knúna til að ræða húsnæðisvandann sem hér ríkir en ég ætla að halda mig við hluta af því sem ég sagði í gær, þ.e. að vera stuttorð um þetta. Ég ætla örstutt að ramma vandamálið inn og mér þykir rosalega mikilvægt að við stiklum á því sem blasir við okkur akkúrat núna, stiklum á þeim aðstæðum sem nú blasa við á húsnæðismarkaði og hvernig þær bitna á lágtekjufólki og hópum sem eru ekki fjársterkir nú þegar. Ég þarf ekkert að taka það fram aftur en hér ríkir stórkostlegur húsnæðisvandi, virðulegi forseti, sem er til kominn af óábyrgri efnahagsstjórn og stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum. Þær fáu fasteignir sem eru í boði á fasteignamarkaðnum, sem ríkir mjög mikill framboðsskortur á, eru keyptar í fjárfestingarskyni af fjársterkum aðilum. Þeir hafa meiri möguleika til að fjárfesta í núverandi kerfi heldur en venjulegt fólk hefur til þess að einfaldlega eiga heimili. Þetta er óboðlegt og við verðum að bregðast við.

Virðulegur forseti. Húsnæði er fyrst og fremst heimili, ekki annar fjárfestingarmöguleiki. Því miður ganga þær lausnir sem hafa komið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar ekki nógu langt. Þetta er auðvitað ekki bara samspil tveggja stórra þátta heldur samspil margra minni þátta og mismunandi þátta sem mynda eina heild, eins og t.d. að það er bara lítill hvati fyrir fyrstu kaupendur að bæta sér við á markaðinn þegar ástandið er eins og það er akkúrat núna og regluverkið er einfaldlega mjög þrengjandi. Það er búið að þrengja að fyrstu kaupendum á þann hátt að litið er á það sem svo að þeir vilji frekar vera á almennum leigumarkaði, sem mér þykir mjög miður. Hins vegar þá lagði ég frumvarp fram á þessu þingi en það hefur ekki enn þá komist á dagskrá. Þar er lögð til einföld aðgerð til að skýra forgangsröðunina, sem sagt að einstaklingar, fjölskyldur og ungt fólk sem er að reyna að koma undir sig fótunum og reyna að eignast heimili — þetta frumvarp veitir þeim vonandi, ef það nær fram að ganga, möguleika á að koma undir sig heimili og samastað til að búa á. Þetta fólk fær forgang fram yfir fjársterka aðila sem sjá sér leik á borði í því að kaupa upp fasteignir í von um gróða. Þess vegna eigum við að takmarka möguleika þessara aðila til þess að kaupa margar fasteignir og í besta falli leigja þær í skammtímaleigu á uppsprengdu verði, sem bitnar auðvitað á fólki sem er þegar á almennum leigumarkaði eða er að reyna að koma sér inn á fasteignamarkaðinn. Það er húsnæðisskortur í gangi. Þetta er eitthvað sem margir hafa bent á á Alþingi og venjulegt fólk sem er bara að reyna að lifa mannsæmandi lífi og stofna fjölskyldu á að vera í forgangi.

Ég ætla nú ekkert að fara út í það hvað Airbnb gerir fyrir efnahaginn á Íslandi og hvort það skili sér til baka í samfélagið og þess háttar. Ég ætla ekki að fara út í þá sálma heldur vil ég fyrst og fremst að ungt fólk, lágtekjufólk og fjölskyldur búi við fjárhagsöryggi og húsnæðisöryggi, enda er húsnæðisöryggi eitt af grundvallarmannréttindum og ég held að það sé algerlega óumdeilt. Þetta er eitthvað sem við ættum hér að reyna að leggja áherslu á og þetta er eitthvað sem ég sakna þess að sjá í fjárlögum, því miður. Það er bara ekki verið að leggja nógu mikið fjármagn, alla vega ekki miðað við hvað það er mikill skortur á húsnæðismarkaðnum, í að tryggja lóðir og það er ekki verið að leggja nógu mikið fjármagn í það að tryggja að framkvæmdir nái fram að ganga. En þetta er eitthvað sem er líka hægt að fara út í þegar rætt verður um atkvæðagreiðslu. Eins og ég sagði ætlaði ég að hafa þetta stutt og ég vona að ég sjái eitthvað annað á næsta ári og í fjárlögum á næsta ári.