154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:47]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég ætlaði nú bara að tjá mig í eitt skipti um atkvæðagreiðsluna en af því að þingmenn meiri hlutans standa hér og tala um aðhaldssöm fjárlög verður að benda á hið augljósa, að sjálfur Seðlabankinn lýsir frumvarpinu sem hlutlausu. Hlutlaust fjárlagafrumvarp á verðbólgutímum getur fyrst og fremst náð fram þeim árangri að gera ekki illt verra. Meiri hlutinn boðar á næsta ári áframhald á rándýrum lántökum. Það sturtast inn tekjur í ríkissjóð núna vegna verðbólgunnar. Tekjur eru að aukast um 200 milljarða. Ríkisstjórnin skilar fjárlögum með halla upp á 47 milljarða. Þessi ríkisstjórn skilar halla algerlega óháð aðstæðum, óháð því hvort vel árar eða ekki. Niðurstaðan er ævinlega halli. Það er þeirra einkenni, það er þeirra leiðarstef. En að tala um aðhald þegar það álit liggur fyrir frá sjálfum Seðlabankanum að ríkisstjórnin ætli ekki að taka að sér metnaðarfullra eða stærra hlutverk í glímunni við verðbólgu en að gera ekki illt verra — aðhald er rangnefni um það sem hér er að gerast.