154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:47]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Ég styð þessa tillögu. Þingflokkur Viðreisnar styður þessa tillögu og aðrar sem hér liggja fyrir um hærri vaxtabætur. Ég nefndi það í upphafsorðum mínum að stærsta verkefnið í þessari fjárlagagerð er að ná tökum á verðbólgunni. Ríkisstjórnin er að kasta inn handklæðinu þar og neitar að sinna því hlutverki sem henni er ætlað. Hún skilur jafnframt eftir heimilin og fjölskyldurnar í landinu með reikninginn fyrir vaxtaákvörðunum Seðlabankans, sem eru grimmari, sem eru harkalegri vegna þess að ríkisstjórnin er ekki að takast á við verðbólguna. Það er ótrúlega alvarlegt aðgerðaleysi og mjög umhugsunarvert að það eigi að skilja heimilin og fjölskyldurnar eftir með reikninginn.

Mig langar líka til að nefna að það þarf að horfa líka aðeins til þess annars vegar hverjar tekjur fólksins í landinu eru en líka á hvaða æviskeiði það er statt. Þessar vaxtaákvarðanir núna bíta ungt fólk, barnafjölskyldur sérstaklega illa. Og trúir því nokkur maður hérna inni í þessum sal að þenslan sé hjá bleiubörnum?