154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

hækkun framlaga til baráttu gegn fíknisjúkdómum.

[15:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég segi bara aftur, og hv. þingmaður getur kallað það ekkert svar, að svarið við þessu er einfaldlega það að við erum ekki með markaðar tekjur þegar kemur að ríkisrekstrinum nema með einstaka einstaka undantekningum. Þær hafa verið afnumdar. Það er þess vegna sameiginlegt verkefni fyrir bæði stjórnvöld og fjárveitingavaldið sem er hér að forgangsraða þeim fjármunum sem skila sér inn í ríkissjóð til verkefna sem við teljum mikilvægust. (Gripið fram í.) Hér hefur nefndin nú þegar lagt til 120 millj. kr. tímabundna hækkun til SÁÁ. Við þekkjum það hvernig þessi mál fara hér í gegnum þingið á hverju ári í fjárlagaumræðu. Við vitum vel að fíknisjúkdómar eru meiri háttar vandamál í íslensku samfélagi og ég get sagt fyrir mitt leyti að að sjálfsögðu er það forgangsverkefni fyrir okkur að geta veitt þá þjónustu og aðstoð sem þörf er á. En ég held að það væri líka gagnlegt að fara yfir það með raunsæjum hætti hvort öll sú nálgun sem viðhöfð (Forseti hringir.) er í dag sé sú nálgun sem eigi að vera. En það eru ekki markaðar tekjur heldur er forgangsröðunin héðan (Forseti hringir.) í hvað fjárlög fara.