154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

450. mál
[14:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ingibjörg Isaksen) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011. Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti. Ein umsögn barst um þessi atriði og er greint frá henni í því nefndaráliti sem liggur frammi. Lög um svæðisbundna flutningsjöfnun tóku gildi árið 2012. Markmið laganna er að styðja við framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni með því að jafna flutningskostnað framleiðenda sem staðsettir eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa því við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar en framleiðendur sem staðsettir eru nær markaði.

Tilefni frumvarpsins er að fram hafa komið ábendingar um að styrkir sem veittir eru samkvæmt lögunum hafi ekki skilað sér með nægilega sanngjörnum hætti til minni framleiðanda. Gagnrýnt hefur verið að lægstu styrkir séu of lágir en þeir sem sækja um lægstu styrkina eru almennt þeir sem standa höllustum fæti vegna smæðar sinnar. Ef þeir hætta að sækja um þá aukast styrkfjárhæðir til stærri aðila með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á samkeppnisstöðu minni framleiðenda. Mikilvægt er því að brugðist verði við þessari stöðu og telur meiri hlutinn efni frumvarpsins stuðla að því að jafna samkeppnisstöðu smærri aðila gagnvart stærri aðilum á markaði og svara þannig kalli minni framleiðenda á landsbyggðinni um að styrkveitingar skili sér með sanngjarnari hætti til umsækjenda. Með þeim megi betur ná þeim markmiðum svæðisbundinnar flutningsjöfnunar sem hafa jákvæð áhrif á byggðir landsins sem staðsettar eru fjarri markaði, en meiri hlutinn áréttar að framleiðsla er enn einn af hornsteinum byggðaþróunar og atvinnusköpunar.

Frú forseti. Meiri hlutinn telur að Ísland eigi að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu. Í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs kemur fram að orkuskipti séu ríkur þáttur í framlagi Íslands til að ná árangri í baráttunni við loftslagsvána samhliða því að styrkja efnahagslega stöðu landsins og vera í forystu í orkuskiptum á alþjóðavísu. Liður í fullum orkuskiptum er að gera Ísland óháð jarðefnaeldsneyti. Við umfjöllun málsins komu fram sjónarmið um að styrkir til jöfnunar á flutningskostnaði olíuvara, sem mælt er fyrir um í 7. gr. laga um svæðisbundna flutningsjöfnun, samræmist ekki þessum áherslum stjórnvalda í loftslagsmálum og heldur ekki áherslum sem íslenskt samfélag og þær þjóðir sem við berum okkur saman við hafa unnið að í tengslum við orkuskipti. Gert er ráð fyrir að lög um svæðisbundna flutningsjöfnun falli úr gildi 31. desember 2025. Þar með falla úr gildi heimildir til veitingar styrkja til að tryggja framboð olíuvara með því að jafna flutningskostnað á olíuvörum sem eru til notkunar innan lands til svæða sem búa við skerta samkeppnisstöðu. Vegna þessa leggur meiri hlutinn til að bætt verði við frumvarpið ákvæði til bráðabirgða um að ráðherra skuli fyrir árslok 2024 gefa Alþingi skýrslu sem feli í sér áætlun um hvernig styrkir til jöfnunar á flutningskostnaði olíuvara verði lækkaðir í þrepum og að lokum felldir niður á gildistíma laganna. Á grundvelli þeirrar skýrslu verði unnt að grípa til viðeigandi lagabreytingar til að gera Ísland óháð jarðefnaeldsneyti. Meiri hlutinn undirstrikar mikilvægi þess að styrkir renni til framleiðenda í samræmi við markmið laganna. Við lækkun í þrepum með niðurfellingu þeirra styrkja sem nú renna til jöfnunar á flutningskostnaði olíuvara telur meiri hlutinn rétt að þeir styrkir renni til framleiðenda á landsbyggðinni í samræmi við markmið laganna.

Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir álit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Bjarni Jónsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Orri Páll Jóhannsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Vilhjálmur Árnason og Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Frú forseti. Okkur er öllum umhugað um byggðaþróun og áttum okkur á mikilvægi þess að halda utan um brothættar byggðir. Það er okkar markmið að halda landinu öllu í blómlegri byggð. Í því felst m.a. að tryggja atvinnulíf á landsbyggðinni, nægileg tækifæri til þess að byggja rekstur og eflast, hvort sem um er að ræða stórar verksmiðjur eða smærri framleiðsluaðila í mikilli samkeppni sem hyggjast færa út kvíarnar. Hér erum við að svara skiljanlegri gagnrýni og tryggja þessum smærri framleiðendum sanngjarnari aðstæður, enda getur samkeppnisstaða þeirra reynst sérstaklega erfið, bæði vegna smæðar og fjarlægðar frá innanlandsmarkaði og/eða útflutningshöfn. Með því að jafna samkeppni milli aðila stuðlum við að blómlegri atvinnu og þá sérstaklega á landsbyggðinni. Þetta er mikilvægt skref í stóru myndinni þar sem atvinnutækifæri eru ein af grundvallarstoðunum í samkeppni byggða um að fá til sín vinnuafl og öfluga einstaklinga.