154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[14:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Teitur Björn Einarsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2024 og breytingartillögum. Meðal breytinga í frumvarpinu er að hækkanir á kolefnisgjaldi, olíugjaldi, almennu og sérstöku kílómetragjaldi, almennu og sérstöku bensíngjaldi, bifreiðagjaldi og gjaldi af áfengi og tóbaki verði 3,5% í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2024. Sama gildir um gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og sérstakt gjald til Ríkisútvarpsins.

Þá er um að ræða hækkun á lágmarksfjárhæð bifreiðagjalds sem lagt er á fólksbíla, framlengingu á ákvæði til bráðabirgða til að sporna við því að víxlverkanir örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða hefjist að nýju, framlenging á bráðabirgðaákvæðum um hækkun á frítekjumarki örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar, breytingar á sóknargjöldum, tímabundin 1 prósentustigs hækkun til eins árs á tekjuskatti lögaðila rekstrarárið 2024, hækkun úrvinnslugjalds á hjólbarða og breytingar á verðmætagjaldi sjókvíaeldis.

Um aðrar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu og ekki er sérstaklega fjallað um í nefndaráliti eða í þessari ræðu vísast til greinargerðar með frumvarpinu.

Nefndin fjallaði ítarlega um málið og fékk til sín fulltrúa ráðuneyta, hagsmunaaðila og aðra sérfræðinga. Bárust 23 erindi um málið, þar á meðal 16 umsagnir og fimm minnisblöð, sem eru aðgengileg á vef Alþingis.

Ég ætla að fara hér í tvö atriði í umfjöllun meiri hlutans í nefndaráliti. Þar er annars vegar um að ræða framlengingu á bráðabirgðaákvæði um víxlverkun á greiðslum almannatrygginga og lífeyrissjóða og svo starfsendurhæfingu. Um þessi mál kom fram í umsögnum að þessum framlengingum væri fagnað og þær taldar eiga rétt á sér en bent var á sérstaklega í máli sem snýr að starfsendurhæfingu að hafin væri vinna við endurskoðun á örorku og endurhæfingarmálum og vonir bundnar við að sú vinna leiddi til endurskoðunar á örorku- og endurhæfingarmálum. Í báðum þessum málum er það sjónarmið og afstaða meiri hlutans að taka undir þau hvatningar- og brýningarorð. Meiri hlutinn hvetur stjórnvöld til áframhaldandi vinnu með varanlegri lausn þannig að ekki verði frekari framlengingar á þessum bráðabirgðaákvæðum.

Þær breytingar sem meiri hlutinn leggur til lúta að sóknargjöldum, verðmætagjaldi í sjókvíaeldi, breytingum á fjármögnun lögbundinnar þjónustu við fatlað fólk, sem er viðbót inn í þessa umræðu, reglugerðarheimild fyrir matvælaráðherra, sem er líka viðbót inn í þessa umræðu, sem og aðrar tæknilegar breytingar eins og rakið er í nefndaráliti.

Um sóknargjöld er það að segja að í frumvarpinu er lagt til að sóknargjöld lækki úr krónutölunni 1.192 í krónutölu 1.107, sem er lækkun um 7,1%. Meiri hlutinn leggur til breytingu þess efnis að sóknargjald haldist óbreytt milli ára og verði á árinu 2024 1.192 kr. Um innheimtu og skil sóknargjalda er mælt fyrir í lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987. Þar segir í 2. gr. að ríkissjóður skuli skila 15. hvers mánaðar, af óskiptum tekjuskatti, fjárhæð er rennur til þeirra safnaða sem rétt eiga á greiðslum og kveðið er á um í lögunum. Síðan eru ákvæði í lögunum um fjárhæð sóknargjalds og árlega uppfærslu hennar.

Frú forseti. Þannig er með þetta mál og hefur verið undanfarin allmörg ár að vikið hefur verið frá þessari reglu í lögunum og sóknargjöld hafa verið ákvörðuð með bráðabirgðaákvæði sem kveður á um fasta krónutölu sóknargjalda. Ég ætla að nefna það hér að fyrir nefndina komu fulltrúar trúfélaga og eru uppi skiptar skoðanir um þetta gjald, allt frá því að það eigi að leggja það af og yfir í það að fylgja eigi eftir reglunni sem er í lögum um sóknargjöld. Samandregið er það mat meiri hlutans að nú sé mál að linni og því er beint til þeirra ráðherra málaflokkanna, hæstv. dómsmálaráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, að huga nú þegar að varanlegri útfærslu á tilhögun sóknargjalda í stað þess að ákvarða þau í formi bráðabirgðaákvæða ár hvert. Nú er mál að linni.

Um fiskeldisgjaldið vil ég fara nokkrum orðum. Í 2. mgr. 2. gr. laga um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó frá 2019 er kveðið á um fjárhæð fiskeldisgjalds og miðast fjárhæð gjalds við nýjasta 12 mánaða meðaltal alþjóðlegs markaðsverðs á laxi næst fyrir ákvörðunardag og skal nema 3,5% þegar verð er 4,8 evrur á kíló eða hærra.

Í 30. gr. frumvarpsins sem hér um ræðir er lögð til sú breyting að efsta þrep gjaldsins, þ.e. þegar verð er 4,8 evrur eða hærra á kíló, hækki úr 3,5% í 5%. Frá upphafi gjaldtöku frá 2019 hefur aðferðafræðin byggst á því að innheimt er stigvaxandi og magnbundið verðmætagjald og greitt fyrir hvert framleitt kíló af slægðum laxi í hlutfalli við verð á heimsmarkaði hverju sinni. En frá því 2019 hafa forsendur í fiskeldi breyst. Þar ber helst að nefna að fram hefur komið að framleiðslukostnaður hefur hækkað og er nú um 6 evrur á hvert kíló en var nærri 4 evrur á kíló þegar lögin voru sett.

Í annan stað hefur uppbygging sjóeldis verið hægari en gert var ráð fyrir. Í greinargerð með frumvarpinu 2019 var gert ráð fyrir að framleiðsla yrði yfir 52.000 tonn, bæði fyrir árin 2022 og 2023. Þetta hefur ekki gengið eftir þar sem framleitt magn 2023 er 33.500 tonn. Sú stærðarhagkvæmni sem var gert ráð fyrir í frumvarpinu 2019 er því ekki komin fram. Þá segir í greinargerðinni, með leyfi, frú forseti:

„Jafnframt er ljóst að komi til þess að uppbygging fiskeldis verði ekki slík, sem að er stefnt ákveðnum skrefum af fiskeldisfyrirtækjunum, þá getur það kallað á endurskoðun gjaldtöku samkvæmt frumvarpi þessu.“

Það er því ljóst að þessi áform hafa ekki gengið eftir.

Ég vil líka nefna það af þessu tilefni að Fiskistofa hefur reiknað út gjald á framleitt kíló fyrir árið 2024 miðað við óbreyttar forsendur laganna. Árið 2023 var gjald per framleitt kíló 18,33 kr. og árið 2024 verður gjald per framleitt kíló, að óbreyttum lögum, 30,77 kr., sem er um 68% hækkun.

Það sem skýrir þessa hækkun eru fyrst og fremst tvö atriði; annars vegar það að í fyrra var gerð breyting á lögunum þannig að nú er viðmiðunarverð til útreiknings meðaltal ársins en ekki meðaltal mánaðanna ágúst til október, sem eru að öllu jöfnu þeir mánuðir þar sem verð er lægst. Þessi breyting ein og sér hefur hækkað viðmiðunarverð til útreiknings fyrir 2024 um 26%. Til viðbótar er rétt að hafa í huga, frú forseti, að á sama tíma er innleiðing á afslætti fiskeldisgjalds að lækka úr 3/7 í 2/7.

Þá liggja fyrir í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi um lagareldi þar sem lagðar eru til grundvallar breytingar á aðferðafræði fiskeldisgjaldsins, sem ég kom hérna inn á áðan, og hefur hæstv. matvælaráðherra metnaðarfull áform um að breytingin verði lögfest fyrir árið 2025. Fjölga á gjaldflokkum og breyta viðmiðunartíma. Þá hefur komið fram frá matvælaráðuneytinu að líta eigi til fjárfestingarþarfar í greininni og gæta að samkeppnishæfni greinarinnar á alþjóðamörkuðum.

Að öllu þessu virtu telur meiri hlutinn rétt að fara þurfi hægar í sakirnar en lagt er til í frumvarpinu og er því lagt til að hækka gjaldið um 0,8 prósentustig en ekki 1,5 prósentustig.

Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2024 hefur verið gerð sú breyting að gert er ráð fyrir 6 milljarða kr. lækkun tekjuskatts einstaklinga vegna tilfærslna tekna til sveitarfélaga vegna reksturs málefna fatlaðs fólks. Útsvar hækki því um 6 milljarða á móti tekjuskattslækkuninni. Í kjölfar þessara breytinga barst hæstv. efnahags- og viðskiptanefnd minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu þar sem segir að stjórnvöld hafi fallist á það með sveitarfélögum að gera breytingu á samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun lögbundinnar þjónustu við fatlað fólk og flytja 6 milljarða frá ríki til sveitarfélaga í því skyni að bæta rekstrarafkomu sveitarfélaga og gera þeim kleift að standa við markmið sín um afkomu og skuldaþróun og rekstur málaflokksins. Því er lagt til að hámarksútsvar sveitarfélaga, sem nú er 14,74%, verði hækkað um 0,23% samhliða lækkun tekjuskatts um samsvarandi hlutföll í öllum skattþrepum einstaklinga.

Þá er líka gert ráð fyrir því að hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í útsvari aukist til jafns við hækkun hámarksútsvars. Þetta er sem sagt sú breyting sem meiri hlutinn gerir er lýtur að breytingu á fjármögnun lögbundinnar þjónustu við fatlað fólk.

Þá kem ég inn á breytingu sem nefndin leggur til og snýr að reglugerðarheimild. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2024 er gert ráð fyrir aukningu upp á 198 millj. kr. til stuðnings innlendri framleiðslu á korni til fóðurs og manneldis. Þar er áætlað að verja um 2 milljörðum kr. til verkefnisins á næstu fimm árum. Hér er um að ræða töluverð fjárútlát sem gera ráð fyrir mati stjórnvalda og því þykir æskilegt að nánari útfærsla með þeim áherslum sem fjárveitingavaldið, að sjálfsögðu, hefur mælt fyrir komi fram í reglugerð. Í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið og matvælaráðuneytið leggur meiri hlutinn því til breytingu á búvörulögum, nr. 93/1993, og búnaðarlögum, nr. 70/1998. Breytingin felur í sér nýja almenna reglugerðarheimild fyrir matvælaráðherra svo unnt sé að útfæra hvernig framkvæmdin skuli vera þegar tilfallandi styrkir og framlög eru veitt til einstakra verkefna í samræmi við markmið laganna og þær fjárveitingar sem veittar hafa verið til verkefnisins.

Frú forseti. Að lokum leggur meiri hlutinn til ýmsar tæknilegar breytingar sem eru nánar útlistaðar í nefndaráliti. Að öllu þessu framansögðu virtu leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Undir álit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Ágúst Bjarni Garðarsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Vilhjálmur Árnason og Steinunn Þóra Árnadóttir.