154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[14:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Teitur Björn Einarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og ég get tekið undir það, eins og ég fór yfir í ræðu minni og kemur fram í nefndaráliti; afstaða meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar er að nú sé mál að linni með að sóknargjöld skuli vera ákvörðuð með þeim hætti sem hefur verið gert undanfarin ár. Ég er líka þeirrar skoðunar að ef farið er eingöngu í lagaákvæðið um sóknargjöld þá er ljóst að eitthvað þarf að laga það til ef það á áfram að leggja það til grundvallar. En það er rétt sem hv. þingmaður kemur hérna inn á. Sóknargjöld eru mjög sérstakt fyrirbæri. Þetta er ekki beinn nefskattur sem lagður er á almenning. Þetta er reiknuð stærð og er í rauninni ákvörðun um fjárveitingu til málaflokksins. Á móti kemur að ýmis trúfélög, eigum við að segja sérstaklega þjóðkirkjan, hafa haldið því á lofti að þetta sé innheimtuþjónusta af hálfu ríkisins. Það kann að vera að allir hafi eitthvað til síns máls í því sem verið er að segja hér. En í ljósi þess að á undanförnum árum hefur orðið gríðarleg breyting á samskiptum ríkis og þjóðkirkjunnar, sérstaklega fjárhagslega, er varðar laun starfsmanna þjóðkirkjunnar og ýmis önnur fjárhagsleg málefni, við getum nefnt hér kirkjujarðasamkomulagið sem ég veit að hv. þingmaður er sérstakur áhugamaður um, þá kemur að þessu sem meiri hlutinn er að beina til ríkisstjórnarinnar og ráðherra þessa málaflokks, að það verði núna fundin varanleg lausn. Síðast var gerð tilraun til þess fyrir nokkrum árum en það hefur ekki komið nein afurð þar sem hægt er að taka afstöðu til málsins. Það getur vel verið að þjóðkirkjan og önnur trúfélög séu komin á þá skoðun að það sé best fyrir þau að innheimta þetta sóknargjald sjálf, en ég hef ekki orðið var við að sú hreyfing sé á málinu.