154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Teitur Björn Einarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé óhætt að fullyrða að það er enginn ánægður með núverandi fyrirkomulag, enginn ánægður með það hvernig staðið er að því að ákvarða sóknargjöld, sem er í rauninni ákvörðun um fjárveitingu til trúar- og lífsskoðunarfélaga, með þeim hætti sem við höfum verið að gera hér á Alþingi undanfarin ár. Þessu verður að breyta. Það er hægt að rekja sóknargjöld þúsund ár aftur og komast að því að þetta er skattur sem er lagður á með tíundinni á sínum tíma og það er hægt að fara í þá merku sögu. Málið er að núna er þetta ekki skattur sem er lagður á einstaklinga eins og gildir um Framkvæmdasjóð aldraðra eða útvarpsgjald. Þetta er reiknuð stærð. Ef það á að gera á þessu breytingar, sem ég tel að sé nauðsynlegt, þá held ég að það sé rétt, til að mynda í fjárhagslegum samskiptum ríkis og kirkju, ef það á að taka upp kirkjujarðasamkomulagið og klára það í eitt skipti fyrir öll hvernig á að fara með þessi mál — ég vil þá bara koma því að í kirkjujarðasamkomulaginu getur það falist að ef ríkið á að hætta að fjármagna ákveðna hluti þá verður ríkið auðvitað líka að skila öllum þeim jörðum sem það tók með kirkjujarðasamkomulaginu á sínum tíma. Það er því ekkert í sjálfu sér einfalt í þessu eða engin töfralausn sem mér dettur í fljótu bragði í hug. Aðalatriðið er að þau sem eiga hér undir í málinu, trúar- og lífsskoðunarfélög, komist að því með einhverjum hætti hvernig þau vilja fjármagna og starfrækja sína starfsemi sem er, frú forseti, gríðarlega mikilvæg í sóknum landsins.

Það ber jafnframt að geta þess sem er atriði til að taka það líka sérstaklega til skoðunar að margar sóknir víðs vegar um landið eru að halda við gömlum kirkjum, mjög merkum og gömlum kirkjum, sem í reynd ætti að fella undir ákveðnar menningarminjar. Ríkisvaldið verður þá að svara því hvort það ætli að taka yfir þessar menningarminjar, gera þær að safni eða vill ríkið að þessar kirkjur verði hreinlega aflagðar? Það eru þessar spurningar sem vakna líka ef við ætlum að ráðast í það að leysa úr þessari stöðu með sóknargjöldin.