154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[15:04]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að minnast á vaxtabætur. Það stendur ekki til að gera breytingar á fjárhæðum eða viðmiðum vaxtabóta milli ára þrátt fyrir að vaxtakostnaður heimilanna sé í hæstu hæðum og fyrirsjáanlegt er að fjöldi fólks muni fá lægri vaxtabætur á næsta ári eða jafnvel detta út úr vaxtabótakerfinu. Ein algengasta skýring þess að fólk fái greiddar minni vaxtabætur milli ára er hækkun fasteignamats, að eiginfjárstaða heimilanna sé góð. Það finnst mér vera ótrúlegur málflutningur sem ekki tekur tillit til staðreynda eins og að hækkun fasteignaverðs eykur ekki ráðstöfunarfé heimilanna, hækkun fasteignaverðs leiðir yfirleitt til aukinna útgjalda vegna hækkandi fasteignagjalda, þau heimili sem hafa tekið verðtryggð lán sjá höfuðstól lána sinna hækka alveg jafn hratt og jafnvel hraðar en fasteignaverðið og hækkun fasteignaverðs hefur engin áhrif á heimilisbókhaldið fyrr en fasteign er seld. En þá þarf líka yfirleitt að kaupa aðra fasteign dýrara verði en annars, þannig að þegar upp er staðið er hagnaðurinn í raun frekar takmarkaður. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist réttlætanlegt að miða við eiginfjárstöðu þegar hún hefur í raun engin áhrif á greiðslugetu heimilanna, sem er það sem skiptir þau mestu máli frá mánuði til mánaðar.

Svo langar mig aðeins að ræða krónutöluskatta en samkvæmt frumvarpinu stendur til að hækka krónutöluskatta um 3,5% á milli ára. Hækkunin er rökstudd með vísan til samræmis við almennar verðlagsbreytingar í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2024. En hvernig samræmist þessi hækkun sem mun hafa áhrif á vísitöluna markmiðum ríkisstjórnarinnar um að lækka verðbólguna, eitthvað sem ráðherrar hennar hafa ítrekað sagt að sé mikilvægasta verkefni hennar? Þessar skattahækkanir leggjast á alla óháð efnahag og bitna því náttúrlega hlutfallslega mest á þeim efnaminni. Tekjulægsta fólkið greiðir hærra hlutfall af sínum ráðstöfunartekjum í slíka skatta og ver hæstu hlutfalli tekna sinna til nauðsynja. Mig langar bara að spyrja: Er þetta rétti tíminn til að fara í svona hækkanir aftur?