154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[15:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Teitur Björn Einarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Í nefndaráliti frá 1. minni hluta, eins og hv. þingmaður fór hér yfir, er umfjöllun um jöfnuð og að beita eigi skattkerfinu í meira mæli. Ég er með spurningu til hv. þingmanns af þessu tilefni, við erum að ræða um að horfa á stóru myndina, hvar jöfnuður er meiri en á Íslandi í öðrum löndum: Hvar er jöfnuður meiri en akkúrat hér á Íslandi? Hvort sem um er að ræða Norðurlöndin eða Evrópusambandið eða þá önnur þau lönd í heiminum sem hægt er að bera Ísland saman við, hvar er jöfnuður meiri?

Jöfnuður, frú forseti, er nefnilega nær hvergi meiri en akkúrat á Íslandi. Jöfnuður á Íslandi er hvað mestur í öllum heiminum og það er hægt að fara yfir ýmsar mælingar á því. Við getum bent á Gini-stuðulinn. Í samantekt frá Hagstofunni fyrir árið 2022 kemur fram að stuðullinn er núna 24,2 stig en án félagslegrar aðstoðar er hann 31,1 stig. Það segir okkur að það félagslega kerfi sem við búum við hér á Íslandi er að hafa gríðarleg áhrif, hvort sem um er að ræða fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, barnabóta, húsnæðisbóta, atvinnuleysisbóta, örorkubóta — það eru gríðarlega mikil áhrif af hinu félagslega kerfi sem birtast okkur í þessum tölum um Gini-stuðulinn. Við erum líka með þrepaskipt skattkerfi. Þannig að ég spyr: Hvað er það sem er svo hræðilegt hér á Íslandi að Samfylkingin talar eins og allt sé hér á vonarvöl? Ég spyr hv. þingmann: Hvar er jöfnuður meiri en á Íslandi?