154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[15:31]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég á nákvæmlega við er að vegna lausataka ríkisstjórnarinnar á ríkisfjármálunum, með því að sýna ekki nægt aðhald og það þarf að gera bæði á útgjaldahlið og tekjuhlið, hefur Seðlabankinn þurft að grípa líklega til róttækari vaxtahækkana en ef hér hefði verið styrkari stjórn. Það er rétt hjá hv. þingmanni að eignamyndun í landinu hefur aukist gríðarlega hjá einstaklingum og fjölskyldum, m.a. vegna húsnæðisbólu sem á m.a. rætur sínar að rekja til stefnu ríkisstjórnarinnar og orða fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra. En það er ekki síst vegna þessara háu vaxta núna sem vandamál blasa við fjölmörgum Íslendingum, ekki bara sárafátækasta fólkinu heldur líka venjulegum Íslendingum, millitekjufólki. Það er nú einu sinni þannig, hv. þingmaður, að jafnvel þó að á pappírunum hafi orðið til einhver eignamyndun þá borðar fjölskyldan ekki hurðarkarma, steinsteypu eða eldhúsinnréttinguna. Það þarf að koma til móts við þessar fjölskyldur.