154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[16:33]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðbrandur Einarsson) (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef bara áhyggjur af því ef hjúkrunarheimilum yfir höfuð fækkar, hvort sem það er í Reykjavík eða annars staðar. Við sjáum hvert sveitarfélag á eftir öðru gefast upp á því að reka hjúkrunarheimili, sem eiga að vera á hendi ríkisins að reka af því að þau fá ekki nægilega fjármuni til að reka þessi hjúkrunarheimili. Ég ætla heldur ekki að gera ágreining við hv. þingmann um þær tölur sem ég las um í fréttum í gær, enda eru þær ekki alveg aðalmálið. Mig langar að benda á að í fjárlögunum sem ég hef hérna fyrir framan mig, á bls. 213, er verið að benda á fjárfestingarframlög sem voru á þessu ári upp á 5,8 milljarða en eiga að vera 500 milljónir á næsta ári. Það á að lækka fjárfestingarframlög um 5,1 milljarð. Maður veltir fyrir sér: Hvernig stendur á þessu? Er það vegna þess að það er svo mikið í sjóði sem hefur ekki gengið út og hægt er að nýta þá fjármuni? Ég skal ekki um það segja. Hér er líka búið að benda á ótrúlegar tafir sem eru að verða, sem ég myndi kannski vilja fara yfir í seinna andsvari, en það að byggja eitt hjúkrunarheimili fyrir 80–90 manns kostar 3–4 milljarða, 3,5–4 milljarða. Ef við erum að tala um einhverja 700–800 einstaklinga, kannski 700 ef tölur hv. þingmanns eru réttar, þá vantar okkur, miðað við að þetta kosti 4 milljarða hvert, tæpa 30 milljarða til að eyða þessum biðlistum. Við förum ekki þangað alveg á næstunni, en við megum ekki setja þetta þannig upp að dregið sé úr þessu frá 5,8 milljörðum í 500 milljónir.