154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[16:35]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að það sé rétt hjá honum að þetta hafi verið sveitarfélögunum baggi, við þekkjum það báðir ágætlega að reka hjúkrunarheimili í okkar byggðarlögum. Þess vegna er ánægjulegt að sjá að ráðherra hefur lagt áherslu á að reyna að stytta þetta ferli, gera það allt saman skilvirkara, vegna þess að það má hreinlega ekki vera þannig að þetta sé enn einn þjónustuþátturinn sem er sveitarfélögum þungur baggi að bera. Við þurfum einhvern veginn að komast af þessari leið að ferlið allt sé svo flókið að við ráðum ekki við það. Af því að ég nefndi Reykjavíkurborg áðan þá hefur eitt hjúkrunarheimili verið á framkvæmdaáætlun hjá borginni og það er nýkomið úr skipulagsferli. Það tók borgina tvö ár — ég nefni borgina vegna þess að þetta er nýbúið að vera í fjölmiðlum — að koma þessu hjúkrunarheimili úr skipulagi svo að hægt væri að hefja þar uppbyggingu. Þetta er vandinn og mig langar í lokin að spyrja hv. þingmann hvort hann styðji ekki vegferð hæstv. heilbrigðisráðherra í því að reyna að finna einhvers konar aðra leið en við erum í, þessi 85/15% leið, og fara í einhvers konar leiguleið, eins og hæstv. ráðherra hefur sjálfur nefnt, til þess að ýta undir og skapa hvata til þess að fjölga hjúkrunarheimilum um land allt á næstu árum. Auðvitað er eðli málsins samkvæmt brýnasta þörfin á fjölmennasta svæðinu, sem er höfuðborgarsvæðið.