154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[17:54]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði til að spyrja hv. formann fjárlaganefndar út í stóru myndina því að hérna er verið að leggja fram frumvarp um aukin útgjöld ríkissjóðs um rúmlega 80 milljarða kr., 80 milljarða sem bætast við eftir að fjárlagafrumvarp ársins í ár hafði farið í gegnum vinnu allt haustið inni í fjárlaganefnd, í 1. 2. og 3. umræðu, og útgjöldin hækka engu að síður núna þegar við erum að ræða um fjárauka um rúmlega 6%. Svona í samhengi við skynsemi og ábyrgð og aga í fjármálum, deilir formaður fjárlaganefndar áhyggjum mínum af því að þetta sé staðan? Tekjur eru vissulega að aukast mjög mikið en það breytir ekki því að samt eru skuldir ríkissjóðs að aukast á milli ára. Ég held að við höfum öll skilning á því að það voru miklar lántökur í tengslum við heimsfaraldur og þingið, vil ég leyfa mér að segja, algerlega sameinað í því að fara í lántökur á þeim tíma. Eftir stendur samt að lántökur voru veruleiki þessarar ríkisstjórnar fyrir heimsfaraldur og ætla að vera það eftir. Getum við ekki gert betur en svo að koma hérna með útgjöld sem hækka um meira en 6% þrátt fyrir að aðstæður séu þær sem þær eru, því að tekjurnar eru vissulega að sturtast inn í ríkissjóð?