154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[18:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir síðara andsvar. Og já, það væri kjánaskapur að halda einhverju öðru fram og óábyrgt að standa hér í þessum ræðustól og segjast ekki hafa áhyggjur af hækkandi skuldastöðu. En ég held að það sé mikilvægt að við áttum okkur líka á því að þó að það sé rétt sem hér kom fram hjá hv. þingmanni um að skuldasöfnunin hafi verið byrjuð fyrir Covid þá fórum við hér saman, þingheimur, og kusum um þær aðgerðir og aðgerðapakka sem voru ætluð til þess að bjarga íslensku efnahagslífi, heimilum og fjölskyldum og sem kostuðu ríkið yfir 300 milljarða. Auðvitað var það ljóst þegar þingheimur greiddi atkvæði um það að við þyrftum að borga þessar skuldir til baka og að þær myndu hækka skuldahlutföll ríkisins og skuldir ríkisins. En það verður líka að horfa aðeins á heildarmyndina og hvað við erum búin að ganga í gegnum sem þjóð og miðað við það, miðað við þau áföll sem hafa gengið yfir okkur á síðustu árum, hvort sem það er Covid, Úkraínustríðið með aðfangahækkunum, núna síðast Grindavík, þá held ég samt sem áður að við séum á góðri leið. Ég veit að okkur greinir á um það í þessum þingsal að einhverju leyti en ég held að stóra myndin sé sú að við erum að klóra okkur í gegnum þetta. Það eru vissulega miklir óvissuþættir á næsta ári, ég nefni hérna kjarasamninga sem munu hafa mikil áhrif á það hvernig vaxtastig og verðbólga þróast í landinu. Ég vonast bara til þess að við berum öll gæfu til að koma saman í samstilltu átaki í því að ná verðbólgu niður á næsta ári, sem er lykilatriði fyrir ríkissjóð, lykilatriði, og heimilin í landinu. Svo get ég ekki látið hjá líða hér í lok þessara andsvara (Forseti hringir.) að benda hv. þingmanni á það að frumjöfnuður er nú orðinn jákvæður.