154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[18:23]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Ég er honum sammála um þýðingu laga um opinber fjármál. Ég geri nú ráð fyrir því að það séum við öll en ég held að það eigi að horfa fastar á lagabókstafinn og þau viðmið og þá umgjörð sem sú lagasetning setur okkur. Þegar hv. þingmaður nefnir þetta þá rifjaðist upp fyrir mér ágæt ferð fjárlaganefndar til OECD þar sem var verið að ræða um á íslensku bestu framkvæmd fjárlaga á milli landa. Þar var rætt t.d. um það að ákveðin ríki ákvæðu þetta í upphafi fjárlagaumræðunnar: Hvar er þakið? Hversu langt förum við með útgjöldin? Hversu hátt ætlum við að spenna bogann? Mér fannst það mjög áhugaverð pæling.

Auðvitað geta komið upp þær aðstæður eins og í heimsfaraldri og þegar áföllin dynja yfir og við viljum standa með fólkinu okkar þannig að við förum í lántökur til að geta brúað erfitt tímabil. En lántökur til lengri tíma hafa, með þessum vaxtakostnaði sem þingmaðurinn reifar í sínu nefndaráliti, áhrif á getu okkar til að fjárfesta í velferð, innviðum og þjónustu og til lengri tíma þau áhrif að það eru börnin okkar sem taka reikninginn. Þannig að ég vildi hér í síðara andsvari bara þakka honum kærlega fyrir þessa brýningu sem birtist í nefndarálitinu um mikilvægi þess að horfa á lög um opinber fjármál og að reyna að gæta þess eftir fremsta megni að leggja ekki fram fjáraukalög með töluverðum auknum útgjöldum sem eru langt umfram að teljast ófyrirséð eða óvænt, ekki að leggja fram fjáraukalög bara vegna þess að það er hægt.