154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[19:14]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Þetta er ein af uppáhaldsspurningunum mínum — eða ekki nákvæmlega þessi endilega heldur þetta form af spurningu því að svarið við þessu er: Hvort tveggja, bæði, það er bæði útgjaldavandamál og tekjuvandamál. Það er eyðsla umfram meðalumfang ríkisins, ekki mikil, 11 milljarðar, kannski hægt að tala um eitthvað innan skekkjumarka eða því um líkt. En þessi fjárlög áttu að vera aðhaldssöm, sem þýðir að þau ættu að vera undir meðalútgjöldum, sem þau eru ekki, þannig að að því leytinu til er ákveðið útgjaldavandamál.

Svo eru tekjurnar undir langtímameðaltali sem bendir til þess að það sé tekjuvandamál. Þegar það á að vera aðhald í efnahagnum, sérstaklega þá ættu tekjurnar frekar að sveiflast aðeins upp á við af því að þá væri ákveðið þensluástand sem ætti að afla meiri tekna. En það er ekki raunin, sem er mjög áhugavert.

Hvar ættum við að grípa í aukatekjur? Almennt séð á að vera til ákveðin greining á því hvernig flæðið er í hagkerfinu. Það á að grípa inn í þar sem fjármagnið er að safnast saman. Það erum við með í breytingartillögum t.d. við fjárlög og bandorminn, þar hafa verið vísbendingar um auknar fjármagnstekjur sem eru að miklu leyti annað form af launatekjum, ég ætla ekki að segja að hversu miklu leyti en að þó nokkru leyti, það er metið á alla vega einhverja 15 milljarða þar. Það eru skattaundanskot sem er hægt að loka og það er ýmislegt sem er hægt að gera til að miðast að þensluáhrifunum í hagkerfinu. (Forseti hringir.) Og á sama hátt á móti þensluáhrifunum útgjaldamegin, t.d. eins og í húsnæðiskerfinu.