154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[19:36]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Þetta fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 2023 er, eins og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans sem ég er á og styð, að taka fyrir ýmsar ráðstafanir sem hafa fallið til á árinu og eru að mestu leyti uppreiknaðar stærðir eins og varðandi lífeyrisskuldbindingar og vaxtagjöld. Svo erum við auðvitað að fást við óvænta atburði eins og jarðhræringar á Reykjanesi sem setja mark sitt á þetta frumvarp. En þetta hefur hv. formaður fjárlaganefndar, Stefán Vagn Stefánsson, farið ágætlega yfir og ég ætla ekki að endurtaka margt af því sem hefur komið fram um þessi atriði öllsömul.

Það sem ég vil gera hér að umtalsefni er 2,1 milljarður í landbúnaðarmál vegna slæmrar stöðu bænda, ungra bænda og skuldugra bænda, og hvernig er verið að bregðast við því. Það er ekki ofsögum sagt að staða bænda nú og undanfarin misseri og á árum áður hefur verið bagaleg og þeir hafa því miður ekki haft sömu tækifæri og aðrir landsmenn til að bæta kjör sín. Það eru ýmsar ástæður fyrir því sem hægt er að rekja en aðalatriðið er að það er núna með þessum ráðstöfunum hér í fjárauka brugðist við þeim bráðavanda sem er uppi og helgast af tillögum sem komu frá ríkisstjórninni með undanfara frá ráðuneytisstjórahópi um tillögu um 1,6 milljarða eftir tiltekinni skiptingu þar sem lagt er upp með að koma til móts við unga bændur sem eru tiltölulega nýkomnir inn í greinina, koma til móts við að hækka fjárfestingarstuðning sem er liður í búvörusamningum og aðrar þær ráðstafanir.

Svo við lestur á þeim skýrslum og greiningum kemur í ljós að það er flokkur bænda, þ.e. kúabændur, sem standa enn þá höllum fæti vegna ýmissa ástæðna. Þess vegna hefur meiri hluti fjárlaganefndar samþykkt að það sé bætt í þetta og þessar 500 milljónir komi til að bæta þeirra stöðu. Í sjálfu sér er fagnaðarefni að það næst samstaða um það hér að koma til móts við bændur því að eins og ég sagði áður er staða þeirra því miður afar bágborin.

Ég vil nefna að í tillögu fjárlaganefndar er gerð tillaga um ákveðna skiptingu, hvernig þessum 500 milljónum til mjólkurbænda skuli ráðstafað. Öll fjárhæðin, 500 milljónir, fari inn í 4. gr. búvörusamnings mjólkurbænda, eða samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar, sem varðar innvegna mjólk. Ég vil segja það hér að ég hefði talið rétt að þessi skipting hefði verið með öðrum hætti. Ég geri engan ágreining um að 500 milljónum sé varið til mjólkurbænda. Ég tel það vera rétt mat og rétta ráðstöfun. Ég vil hins vegar reifa hérna nokkur atriði sem hefðu að mínu mati verið betri skipting, sanngjarnari skipting, gegnsærri skipting og almennari út frá þeim samningi sem er í gildi. Út af þeim samningsskuldbindingum sem ríkið hefur tekið á sig í búvörusamningum við mjólkurbændur þá hefði ég talið eðlilegra að skiptingin væri þannig að u.þ.b. helmingur færi inn á greiðslumark samningsins samkvæmt 3. gr. og hinn helmingurinn inn á 4. gr., sem er þá innvegin mjólk samkvæmt samningnum. Þessir tveir meginþættir samnings við mjólkurbændur, greiðslur út á greiðslumark og greiðslur út á innvegna mjólk, skiptast jafnt um þær greiðslur. Á árinu 2023 eru greiddar samkvæmt samningi til mjólkurbænda annars vegar greiðslur út á greiðslumark, sem eru 2 milljarðar og 500 milljónir, en greiðslur út á innvegna mjólk eru 2 milljarðar og 900 milljónir, þannig að helmingaskipting hefði að mínu mati verið rétt og eðlileg.

Ég vildi að þetta kæmi fram þó að ég hafi að sjálfsögðu stutt þá tillögu sem meiri hluti fjárlaganefndar er að gera um 500 milljónir aukalega fyrir mjólkurbændur. Og af hverju er ég að segja þetta? Af hverju er þetta mikilvægt? Ef maður skoðar samning við mjólkurbændur þá eru augljósir tveir veikleikar í honum að mínu mati sem ég teldi tímabært að yrði farið í að reyna að laga og rétta stöðuna þannig að við værum að horfa til framtíðar, værum að horfa á það að bæta rekstrargrundvöllinn varanlega og jöfnum skrefum við mjólkurbændur. Og hvað er það sem er að gerast? Jú, það er þannig að í dag er viðmiðunarverð þess sem ríkið styður mjólkurbændur um vægisviðmiðun frá 2004/2005 um 106 milljónir lítra, sem sagt 106 milljónir lítra framleiðslu með skiptinguna 25% í fitu og 75% í próteini. Staðan í dag er hins vegar sú að heildarframleiðslan í mjólk nemur upp undir 149 milljónum lítra. Það er um þriðjungur af heildarmjólkurframleiðslu í landinu sem nýtur þá ekki stuðnings ríkisins með þessum hætti. Það verður líka að taka það með í reikninginn að vægisviðmiðunin milli fitu og próteins hefur breyst og ef við værum að horfa á það hver sé þá ástæðan fyrir versnandi afkomu mjólkurbænda þá tel ég þetta vera eina ástæðuna fyrir því og hvernig hægt væri að koma til móts við þá til framtíðar litið og við værum þá að styrkja samninginn, værum að styrkja rekstrargrundvöll þessara bænda.

Annað sem er líka að koma í ljós er að sá verðlagsgrunnur sem lagður er til grundvallar út frá þeim styrkjum sem eru veittir til mjólkurbænda frá um 2002 eða 2004 hefur eiginlega ekkert verið endurskoðaður eða tekinn upp og er að verða mjög skakkur og rangur bókstaflega. Þannig er vægi vaxtakostnaðar og fyrningar af tækjum og tólum eiginlega úr sér gengið og það er líka þannig að greiðslur upp í vaxtakostnað bænda eru ekki lengur 100% heldur um 75%. Þetta eru auðvitað nokkuð tæknileg atriði en samantekið draga þessi tvö atriði upp þá mynd að það eru veikleikar í fyrirkomulagi á styrkjakerfi til mjólkurbænda. Ég teldi því eðlilegast og rétt að það væri farið í að laga það það sem eftir lifir af samningstímanum, til 2026, þannig að við verðum komin í þá stöðu að hægt verði að ræða um endurnýjun á búvörusamningi á einhverjum eðlilegum grunni þar sem til framtíðar er litið.

Þetta á ekki eingöngu við um mjólkurbændur, þetta á líka við um sauðfjársamninginn eða búvörusamninginn við sauðfjárbændur. Þar er alveg augljóst að staða sauðfjárbænda hefur um langt skeið ekki verið góð, langt í frá, og við verðum að líta til þess að á undanförnum árum og misserum hafa stjórnvöld, ríkisstjórnin og Alþingi, verið ár eftir ár eða jafnvel bara með nokkurra missera millibili að bregðast við ýmsum bráðavanda sem hefur verið að koma upp. Það hefur verið spretthópur, það hafa verið sérstakar greiðslur vegna hækkandi aðfanga og núna er þessi ráðuneytisstjórahópur, allt til þess að bregðast við einhverri stöðu sem er að koma upp. Þetta segir okkur einfaldlega að þær greiðslur sem ríkið er að inna af hendi samkvæmt búvörusamningi tryggja ekki afkomu bænda nægilega vel. Þá er rétta leiðin að fara að ráðast að rót vandans en vera ekki alltaf að plástra þetta með reglulegu millibili, með nokkurra missera millibili. Það er ólíðandi staða fyrir bændur að vera í og allt of mikil óvissa fyrir þá um afkomu sína og framtíðarhorfur.

Við sjáum líka mismunandi stöðu bænda, til að mynda er staða mjólkurbænda betri en sauðfjárbænda. Það hefur náðst gríðarlegur árangur í mjólkurframleiðslunni. Bændur hafa hagrætt, þeim hefur fækkað, bú hafa stækkað, nyt hafa aukist og afurðastöðvar hafa með samvinnu og samstarfi getað hækkað verð til bænda en að sama skapi skilað ávinningi af hagræðingu til neytenda. Hér er verk að vinna er snýr að afurðastöðvum fyrir kjötið, fyrir lambakjötið, af því að við höfum fordæmi fyrir framan okkur um hvaða ávinningur getur falist í því að afurðastöðvum sé heimilt að hagræða, auka samstarf sín á milli, bæði ávinningur fyrir sauðfjárbændur og svo líka fyrir neytendur í landinu. Þetta er auðvitað atriði sem við verðum að horfa til sem getur verið til þess fallið að bæta mjög stöðu bænda í stað þess að við séum hér á Alþingi í gegnum fjárveitingavaldið að bregðast aftur og aftur við versnandi afkomu bænda.

Samandregið, frú forseti, þá er verk að vinna. Það er verk að vinna við að rétta við afkomu bænda. Þessar tillögur sem hér liggja fyrir eru mikilvægur áfangi í því að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin þannig að við stöndum ekki frammi fyrir því að fjöldi búa, fjöldi bænda og fjölskyldur hreinlega gefist upp og bregði búi. Það væri gríðarlegt áfall fyrir íslenskt samfélag. Það væri efnahagsleg áfall og hefði geigvænlegar afleiðingar fyrir byggðir landsins og það má ekki gerast. Það er því rétt að við notum þennan tíma núna eftir að þessar tillögur eru komnar fram og komnar til framkvæmda, að við hefjumst strax handa við að bæta stöðu bænda enn frekar, leggja grunn að því að endurskoða búvörusamninga, hefja samtal við bændur og þeirra forystusamtök um það hvernig þeir sjá fyrir sér að bændur bæti starfsskilyrði sín og kjör í samvinnu við ríkið. Þetta tel ég vera lykilatriði og í því samhengi er mikilvægt, svo ég endurtaki mig, að við horfum í grunnatriði samnings mjólkurbænda og horfum í að styrkja meginþætti samningsins, sem eru greiðslur inn á greiðslumark og greiðslur inn á innvegna mjólk.

Og af hverju segi ég þetta, frú forseti? Jú, það er nefnilega þannig að árið 2019 samþykkti meginþorri mjólkurbænda, eða yfir 90%, að hætta við að leggja þetta kerfi af, eins og hafði verið gert ráð fyrir í samningi 2016. Þeir hættu við það með yfirgnæfandi stuðningi, yfirgnæfandi meiri hluta að leggja þetta kerfi af og töldu best að búa við núverandi kerfi. Það er ágætt kerfi en það sem vantar upp á er það sem ég hef verið að rekja hérna, að forsendum samningsins af hálfu ríkisins hefur ekki verið fylgt nægilega vel eftir.

Að þessu sögðu, frú forseti, þá geri ég ráð fyrir að umræðu um þetta frumvarp fari nú senn að ljúka. En auðvitað er það þannig að hv. fjárlaganefnd tekur mið af þeim ábendingum sem hér koma fram þannig að við ljúkum þessu máli fyrir árið 2023 með sómasamlegum hætti og umfram allt með sómasamlegum hætti í þágu íslenskra bænda.