154. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2023.

Störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegur forseti. Skömmu eftir að landnám hófst á Íslandi tók að koma í ljós það sem speglaði raunverulegt hugarþel frumbyggjanna hér; samkenndin og það að láta sér annt um náungann og ekki síst þá sem bjuggu við skertan hag eða heilsu. Þótt tog um peninga og eignir hafi leitt til átaka sem leiddu til þess að við glötuðum sjálfstæði okkar um næstu sjö alda skeið mætti halda því fram með gildum rökum að grunntónn samhygðar í íslensku samfélagi standi óhaggaður og það velferðarkerfi sem við höfum byggt upp er litið bæði aðdáunar- og öfundaraugum um víða veröld. Það skýrir að nokkru þann vaxandi áhuga erlendra þegna á að öðlast hér búsetu- og ríkisborgararétt eins og við blasir og ásókn erlendra gesta og starfsfólks á allra síðustu árum og misserum hefur orðið slík að fáa hefði fyrir því órað og hefur þessi mikla og skyndilega fólks- og ferðamannafjölgun reynst mikil og erfið áskorun. Hagkerfi okkar hefur þanist út og valdið slíkri verðbólgu að nú eru á því mikil efnahagsleg vandkvæði að framkvæma það sem enga bið þolir og varðar sjálft öryggi okkar, til að mynda á vegum úti, húsnæðisskort og álag á heilsugæsluna, hjúkrunarrýmin, skólana, öldrunarheimilin og umönnun yngsta fólksins okkar hér ekki síst.

Stærsta áskorun okkar í dag er að ná niður verðbólgunni og vöxtunum ofurháu sem valda öllum almenningi miklum búsifjum og mestum þeim sem efnaminnstir eru, öldruðum, öryrkjum og fátækum. Þennan hnút verður að leysa hið allra fyrsta, að ekki sé minnst á þann flækjufót skerðinga, eftirleguvanda sem blasað hefur við viðkvæmustu hópunum okkar um árabil. Áratugafyrirheit um úrbætur tryggingakerfisins okkar eru sagðar á lokastigi en furðulegt nokk án samráðs við og án vitneskju þeirra sem málið varðar mest. Mættum við vinsamlegast biðja um opið samráð og gagnsæi á lokametrum þessa mikilvæga máls, herra forseti, sem tryggja myndi okkar bláfátækustu tíund Íslendinga mannsæmandi kjör og þó fyrr hefði verið.

Sýnum í verki, kæru vinir, (Forseti hringir.) í komandi atkvæðagreiðslum á síðustu dögum haustþings að við látum okkur kjör alls þessa hóps varða, til að mynda þegar kemur að jólauppbótinni sem sjaldan hefur skipt jafn miklu máli fyrir fólkið okkar nú á þessu yfirstandandi óhugnanlegu dýrtíðartímum. (Forseti hringir.) Höfnum illskunni, hvort sem um er að ræða fórnarlömb heimsins grimmu styrjalda eða fórnarlömb óréttlætis (Forseti hringir.) innan okkar eigin samfélags. Megi okkur öllum síðan líða vel og farnast vel hér á Íslandi farsældar fróni.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir aftur á takmarkaðan ræðutíma undir þessum dagskrárlið, störf þingsins.)