154. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[15:55]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Í frumvarpi til fjárlaga árið 2024 er gert ráð fyrir að fé verði tekið úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að standa straum af rekstri hjúkrunarrýma. Í frumvarpinu sem hér um ræðir er það útfært með því að leggja til framlengingu á ákvæði til bráðabirgða sem hefur áður verið framlengt tíu sinnum. Í lögum um málefni aldraðra segir um Framkvæmdasjóð aldraðra:

„Sjóðnum er ætlað að stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um allt land og skal fé úr honum varið til byggingar stofnana fyrir aldraða, þjónustumiðstöðva og dagdvala, að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar á slíku húsnæði og til viðhalds húsnæðis dagdvalar-, dvalar- og hjúkrunarheimila, auk annarra verkefna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu.“

Það fer þvert gegn upphaflegum tilgangi framkvæmdasjóðsins að nýta fjármuni hans í rekstur hjúkrunarheimila en ekki í raunverulegar framkvæmdir, uppbyggingu hjúkrunarheimila, sem sannarlega er skortur á. Þess vegna leggjum við í Flokki fólksins til að umrædd heimild verði felld brott.