154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

stjórnmálasamband Íslands við Ísrael.

[10:38]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Stóra málið finnst mér, eins og ég segi, í þeim hörmungum sem birtast okkur á Gaza daglega, er auðvitað samstaða alþjóðasamfélagsins. Ég tel þess vegna að þessi atkvæðagreiðsla sem nú var á vettvangi allsherjarþingsins hafi verið gríðarlega mikilvæg þó að auðvitað hafi ekki verið full samstaða. Því miður er slík ályktun ekki lagalega bindandi. Hún endurspeglar einfaldlega afstöðu alþjóðasamfélagsins sem hlýtur að skipta miklu máli í þessum efnum.

Hv. þingmaður spyr um aðgerðir sambærilegar þeim sem við höfum beitt gegn Rússlandi. Vissulega er munurinn sá að við erum auðvitað ekki með sendiráð í Ísrael, við getum ekki kallað neinn heim eða neitt slíkt. En ég minni á að þegar starfsemi sendiráðsins var hætt fól það ekki í sér að slíta stjórnmálasambandi og í þessum efnum myndi ég telja að þetta væri ekki sambærilegt. Ég vil líka minna á að viðskiptaþvinganir eru eitthvað sem er rætt á alþjóðavettvangi. (Forseti hringir.) Ég leyfi mér að efast um gildi þess að Ísland eitt og sér myndi ráðast í slíkar þvinganir og minni bara á að þær viðskiptaþvinganir sem eru í gangi gagnvart Rússlandi eru ákveðnar á alþjóðlegum vettvangi.