154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

niðurstöður PISA-könnunarinnar og umbætur í menntakerfinu.

[11:01]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Þessi staða ætti að halda fyrir okkur vöku. Við ættum ekki að geta sofið yfir þessari stöðu. Þetta eru orð konu með reynslu úr skólastarfi og hún var að tala um niðurstöður PISA. Kennari lýsti því fyrir mér að hann upplifði algjöra endurtekningu fyrirsagna, þær sömu og á árinu 2015 og aftur 2018. Árið 2023 mega viðbrögðin þess vegna ekki verða eins og áður; flóðbylgja frétta og tilfinninga í nokkra daga og svo gerist ekkert. Við vitum að við eigum frábæra kennara og frábæra krakka, og hvað er það þá sem veldur? Hvað þýða þessar niðurstöður? Samanborið við jafnaldra á Norðurlöndum og í ríkjum OECD eru margir nemendur á Íslandi sem skora lágt í lesskilningi. 40% hafa ekki náð grunnfærni í lesskilningi. Frammistaðan hér dvalar meira en á Norðurlöndum, við lækkum um 13%, 14%, en talan er 3–8% á hinum Norðurlöndunum. Menntamálastofnun nefnir líka að þeim börnum fækkar sem sýna afburðaárangur. Þau eru líka hlutfallslega fá miðað við samanburðarlönd. Staðan á Íslandi er sem sagt þessi: Þeim fjölgar sem ekki ná grunnfærni og þeim fækkar sem sýna afburðaárangur. Þetta er mikið áhyggjuefni. Aðalnámskrá birtir menntastefnu stjórnvalda, námsframboð og námskröfur. Hún á að tryggja börnum góðar aðstæður til náms, markar starfsramma stjórnenda og kennara við skipulagningu skólastarfs, er grundvöllur mats á skólastarfi og námsmats í skólum, forsenda þess að menntamálaráðherra geti sinnt eftirlitshlutverki sínu. Aðalnámskrá er samningur þjóðarinnar við sjálfa sig um menntamál. Ráðherra setur hana, ráðherra getur breytt henni.

Mín spurning er: Er eðlilegt að aðalnámskrá sé eingöngu á borði ráðherra? Er eðlilegt að grundvallarákvarðanir í menntamálum þjóðarinnar í gegnum aðalnámskrá (Forseti hringir.) séu hjá ráðherra og að Alþingi hafi þetta lítið um menntastefnu þjóðarinnar að segja?