154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[15:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur andsvarið. Þegar kemur að pælingunum varðandi kynin og hlutfallið þá eru það vissulega áhugaverðar pælingar en ég held að það sem er markmið ráðherra með þessari þingsályktunartillögu, og fékk líka töluverða umfjöllun í nefndinni, snúi að því að við viljum sjá jafnrétti, jöfn tækifæri allra, óháð kyni, kynþætti, búsetu eða efnahag. Hæstv. ráðherra háskólamála hefur bent á það að við stöndum höllum fæti þegar við berum okkur saman við önnur lönd hvað viðkemur þeim sem klára háskólanám og að hér er töluverður kynjahalli. Það er svo aftur á móti mjög áhugaverð pæling inn í umræðuna um launamun kynjanna en það tæki miklu meiri tíma en þessa einu mínútu sem ég hef hér. Ég held að þær aðgerðir sem hæstv. ráðherra hefur boðað og þær hugmyndir sem fram hafa komið í þessari vinnu séu einmitt til þess fallnar að ýta enn frekar undir aukna ásókn karla í háskólanám og vil ég þá líka benda á þá breytingu sem við gerðum á síðasta kjörtímabili þar sem við tókum í rauninni stúdentsprófið út sem kröfu (Forseti hringir.) fyrir háskólanámi, þ.e. háskólum er það í sjálfsvald sett hvaða kröfur þeir gera fyrir viðkomandi nám (Forseti hringir.) og ég held að svoleiðis aðgerðir og jafnframt möguleikar á styttra háskólanámi séu til þess fallnar að auka þetta jafnræði. (Forseti hringir.) Ég náði ekkert að fara inn á fjarnámið en kem kannski að því síðar í andsvörum.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða tímamörkin.)