154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[15:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan varðandi listirnar þá held ég að þær skipti sköpum. En við verðum að horfa á það að hér erum við að tala um aðgerðaáætlun til að ná fram auknum krafti í þáttum sem þarna eru sérstaklega nefndir. Þar með er ekki sagt að það sé verið að hætta einhverju af því góða starfi sem verið er að gera á sviði lista eða hugvísinda eða annarra sviða. Hv. þingmaður kom inn á samstarfsaðila og ég tek undir það, ég held að það sé mikilvægt að stjórnvöld og löggjafinn hlusti á sem flesta þegar kemur að mótun aðgerðaáætlunar eins og hér er undir, eins og ég held að hafi verið gert, bæði í gegnum samráðsgáttina og svo í gegnum umsagnarferli hér á þinginu og gestakomur hjá okkur í nefndinni sem voru allmargar eins og liggur fyrir í nefndarálitinu. Ég tek bara undir það hjá hv. þingmanni að nýsköpun getur verið alls konar og ég vona að ég hafi náð að tæpa aðeins á því í ræðu minni. Auðvitað er það þannig að ný þekking sprettur gjarnan úr háskólasamfélaginu, þekkingarsamfélaginu, en það er líka oft þannig að alls konar tækniuppfærsluverkefni eða nýsköpunarverkefni geta orðið til úti í atvinnulífinu eða hjá einstaklingum og þess vegna er auðvitað mjög mikilvægt að það sé einhvers konar farvegur og stuðningur til handa þeim aðilum sem slíkar hugmyndir fá. Og ég held að það sé mikilvægt að við styðjum við það starf eins og gert hefur verið oft og tíðum úti á landsbyggðinni í gegnum atvinnuþróunarfélögin og ráðgjöf þar. Það var gert á sínum tíma hjá Nýsköpunarmiðstöð og er gert nú í formi alls konar hraðla og samkeppna þar sem hægt er að styðja fólk áfram með sínar hugmyndir.