154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[18:30]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa yfirferð. Þarna er auðvitað um að ræða gjöld sem ekki hafa verið innheimt um árabil af ýmsum ástæðum og í rauninni fyrst byrjað á þessu í kringum 2012. Á meðan hefur verið tekið tillit til þess samkeppnisumhverfis sem seljendur gistinátta búa við, þ.e. fljótandi hótel hafa verið undanþegin í umræðunni fram að þessu og það má kannski má segja að það hafi verið tímabært að taka þau sjónarmið inn. Gæti hv. þingmaður upplýst mig um hvers vegna sá samkeppnishalli er enn til staðar sem lýtur að skammatímagistingu, þ.e. þeim mikla og vaxandi fjölda þeirra sem hreinlega gera út gistihús fyrir það sem kallað er Airbnb með tilheyrandi rekstrarkostnaði? Það þarf að setja slíkt upp sérstaklega með tilliti til brunavarna og útgönguleiða og þrifa og viðhalds og alls þessa. Þetta eru í rauninni gistihús. Hví er það svo að þessi tegund af gistingu er undanþegin? Vonandi ekki vegna þess að það eru hagsmunaaðilar sitjandi hérna á þinginu sem eiga hagsmuna að gæta. Ég vona ekki. En ég er forvitinn um skýringarnar á þessu.