154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[18:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Teitur Björn Einarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og get upplýst það að í nefndinni var þetta mjög tekið til skoðunar, þessar heimagistingar sem eru öðru nafni nefndar Airbnb-gistingar eða eru á öðrum vettvangi. Heimagistingar sem eru reknar í atvinnuskyni af einstaklingum eða lögaðilum eru virðisaukaskattsskyldar og þar með fellur til gistináttaskattur. Gistináttaskattsskyldan er tengd við virðisaukaskattsskylda starfsemi. Heimagisting sem fellur ekki undir atvinnurekstur og er innan þriggja mánaða tímabils á ári eða 2 millj. kr. hámarks á tekjum er ekki undir virðisaukaskattsskyldunni og heyrir ekki undir gjaldskyldu gistináttaskatts. Við ræddum þetta talsvert og það komu í ljós ýmis atriði sem hv. þingmaður kemur inn á og það er alveg hárrétt, það er þetta jafnræði á samkeppnisgrundvelli sem skiptir öllu máli. Við erum í þeirri stöðu að hafa fyrir framan okkur í vinnu nefndarinnar að það stendur yfir heildarskoðun á þessu umhverfi ferðaþjónustunnar og gjaldtöku af ferðamönnum, m.a. með tillögum sem voru nýlega birtar. Við í meiri hlutanum í efnahags- og viðskiptanefnd erum sammála um og um þetta var reyndar nokkuð breið samstaða meðal allrar nefndarinnar, leyfi ég mér að segja, að þetta verði skoðað áfram og reynt að ná betur utan um þetta. Þetta snýr jafnframt að því sem ég kom inn á í minni framsögu, svona húsbílaleigum, með leyfi, „camper vans“ á ensku, frú forseti, sem er líka annars konar form af gistiþjónustu. Auðvitað er það sjónarmiðið sem horft er til þegar verið er að setja skemmtiferðaskipin undir gjaldskyldu gistináttaskatts, það er gert í fyrsta lagi á þessum grundvelli sem hv. þingmaður nefnir og snýr að jafnræði og samkeppnissjónarmiðum.