154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[18:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Teitur Björn Einarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Ég get að mörgu leyti tekið undir þessar vangaveltur og sjónarmið og spurningar sem hv. þingmaður ber hér upp. Það er einmitt það sem við erum að skoða og vorum að skoða við meðferð þessa frumvarps, þ.e. þessi breiðari grunnur, hver staða ferðaþjónustunnar er varðandi gjaldtöku og annað slíkt og hvernig það kæmi út með þessum tiltekna þætti. Gistináttaskatturinn er eitt tiltekið atriði sem kemur fram í þessu frumvarpi sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd fékk til meðferðar og þetta var niðurstaðan eftir að við höfðum reynt af fremsta megni að virða öll þau sjónarmið og ábendingar sem höfðu komið til okkar og hvernig málin höfðu þróast. Ég get tekið undir að það er mikilvægt að það verði hugað að því og sú vinna stjórnvalda sem er í gangi leiði til breiðari niðurstöðu um hvernig þessari gjaldtöku skuli háttað og að hversu miklu leyti skuli vera gjaldtaka. Þá ætla ég sérstaklega fá að nota tækifærið og lýsa því hér yfir að ég tel að til að mynda gjald sem er rukkað á ferðamannastöðum eigi vel rétt á sér og sé hagkvæmt og að mörgu leyti í hagfræðilegum skilningi skynsamlegt á margan hátt. Það hafa lengi verið uppi umræður um komugjöld og annað slíkt eða hvort við eigum að taka upp vegtolla með það fyrir augum að 40% notenda vegakerfisins, sem eru ferðamenn, séu að greiða til vegakerfisins. Þetta getur jafnframt lotið að gjaldtöku sem snýr að heilbrigðisþjónustu og annarri nýtingu þeirra innviða sem við höfum upp á að bjóða. Ég tel að við eigum að horfa á þetta á breiðum grundvelli. Þótt ég sé ekki hrifinn frú forseti, af háum sköttum þá tel ég auðvitað eðlilegt að þeir skattar sem við þurfum að leggja á til að afla ríkinu tekna séu lagðir á á breiðum grunni, séu gegnsæir og það sé jafnræði sem ríki.