154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[21:09]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessar spurningar en ég vil biðja hv. þingmann og formann efnahags- og viðskiptanefndar að rifja það upp með mér hvenær minnisblaðið frá fjármálaráðuneytinu barst nefndarmönnum og segja um leið hvort honum finnist það ásættanlegur tímafrestur fram að umræðu um sjálfa tillöguna.

Hv. þingmaður spyr hvort laun geti ekki skipt máli þegar kemur að verðbólgunni. Auðvitað geta ástæður fyrir verðbólgu, eins og ég nefndi í upphafi ræðu minnar, verið margþættar en það sem ég var að draga fram var það sem hagfræðingurinn Gylfa Zoëga benti á í Vísbendingu þegar hann vildi skoða hvað það er sem veldur því að þó að í nágrannalöndunum og löndunum sem við viljum bera okkur saman við hafi verðbólgan farið upp í kjölfar heimsfaraldurs og stríðs í Úkraínu þá hafi hún farið hraðar niður í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við en hér heima. Hver gæti ástæðan verið? Hagfræðiprófessorinn dregur fram hvað það er sem er hér með öðrum hætti og það er m.a. að ferðaþjónustan er mjög stór hér á landi og tekur stærra pláss í hagkerfinu heldur en í löndunum í kringum okkur. Það væri óábyrgt af stjórnvöldum að horfa ekki til þess í þessu sambandi vegna þess að fyrir vikið helst hér húsnæðisverð mjög hátt og við glímum við húsnæðisskort.

Forseti. Tíminn er svo fljótur að líða í andsvörum. En nei, ég var ekki með neina tillögu en mér finnst nauðsynlegt, þegar við erum að ræða rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar, (Forseti hringir.) að horfast í augu við það hvernig það nákvæmlega er og færa rök fyrir því hvers vegna (Forseti hringir.) ferðaþjónustan er í lægra þrepi heldur en önnur þjónusta hér á landi. Ef þau rök halda er ég sátt við það en ég hef ekki heyrt stjórnvöld ræða það lengi.