154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[21:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Teitur Björn Einarsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er ágætt að heyra að það er ekki verið að leggja til að gistiþjónustan fari í hærra virðisaukaskattsþrep. En hins vegar get ég alveg tekið undir með hv. þingmanni um þetta heildarsamhengi og áhrif sem ferðaþjónustan hefur á íslenskt efnahagslíf. Ég tel hins vegar ekki alveg rétt þegar um er að ræða verðbólgu að ferðaþjónustan sé dregin eitthvað sérstaklega fram í sviðsljósið í þeim efnum nema að gæta að öllu þessu heildarsamhengi í okkar hagkerfi. Þess vegna spurði ég hv. þingmann hvort launahækkanir umfram framleiðni sem hafa verið hér undanfarin ár á Íslandi hafi ekki áhrif.

Hv. þingmaður fjallar hér um gjaldtöku á ferðaþjónustu og áhrif hennar og kemur inn á þessa skýrslu um aðgerðaáætlun og nefnir ýmsar tillögur sem eru þar eins og t.d. þessa aðgangsstýringu. Mig langar að spyrja hvort hv. þingmaður sé þá sammála því að aðgangsgjald verði tekið upp á svæðum eins og Geysi, Gullfossi og öðrum slíkum náttúruperlum. Ég get upplýst að það eru mörg ágætisrök fyrir slíkri gjaldtöku umfram aðra gjaldtöku. Ég get líka upplýst hv. þingmann um það að ég er ekki stórkostlega hrifinn af gistináttaskatti. Við sáum það í umfjöllun nefndarinnar að þetta er ekki fullkominn skattur, svo ekki sé meira sagt um það.

Það sem ég vil árétta varðandi þá breytingartillögu er snýr að bráðabirgðaákvæði fyrir bílaleigur þá er það svo að já, það hefur borist erindi frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Það verður fundur með fjármála- og efnahagsráðuneytinu á morgun í efnahags- og viðskiptanefnd. Þetta atriði kom fram í öllum umsögnum og við gestakomur í nefndina, bæði í máli nr. 2 og þessu máli, nr. 468, og það er líka sjálfsagt að ræða það hér (Forseti hringir.) í þessum þingsal og gott að þessi tillaga komi þá fram í 2. umræðu og svo til áframhaldandi umræðu í nefnd milli umræðna.