154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[21:17]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld, svokallaðan bandorm, reyndar annan af þremur sem ríkisstjórnin hefur kynnt fyrir þessi jól. Stærsta breytingin í þessu frumvarpi snýr að því að gistináttaskatti er komið aftur á í breyttri mynd en í þessu frumvarpi eru einnig önnur og ekki síður mikilvæg atriði sem þarf að gefa gaum.

Frumvarpið sem lagt var fram snemma í nóvember var að mínu mati gallað í nokkrum veigamiklum atriðum sem umsagnaraðilar gerðu skilmerkilega grein fyrir í umsögnum sínum og á fundum með efnahags- og viðskiptanefnd. Meiri hlutinn ákvað að bregðast við þeim athugasemdum og því hef ég ákveðið að styðja nefndarálit og breytingartillögur meiri hlutans. Þær eru í þeim anda sem ég hafði verið að velta fyrir mér og því sé ég ekki ástæðu til þess að vera með sérstakt álit þegar flestar þær breytingar sem ég taldi nauðsynlegt að yrðu gerðar á frumvarpinu eru að verða að veruleika. Margir hefðu sjálfsagt viljað hafa þetta eitthvað öðruvísi en það er ljóst að frumvarpið eins og það liggur fyrir núna kemur verulega til móts við marga þá aðila sem lýstu áhyggjum sínum þegar þeir komu fyrir nefndina.

Mig langar, virðulegur forseti, að fara yfir nokkur þau atriði sem frumvarpið tekur til og ber þar hæst að nefna gistináttaskattinn. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að 300 kr. yrðu rukkaðar fyrir hvern fullorðinn næturgest og skiptir þá engu hvort gist væri í tjaldi eða á fimm stjörnu hóteli. Mér fannst ekki geta gengið að gistináttaskattur af fimm manna gistingu í tjaldi yrði 1.500 kr. en gistináttaskatturinn af dýru tveggja manna herbergi væri 600 kr. Hótelgistingin er margfalt dýrari en þegar þú gistir í tjaldi þá ertu í raun að skaffa þína eigin gistingu þar sem þú kemur sjálfur með tjaldið en ert bara að njóta aðstöðunnar sem boðið er upp á á tjaldstæðinu. Það var því ánægjulegt að sjá að meiri hluti nefndarinnar leggur til að ekki verði greitt á hvern einstakling heldur stuðst við eininguna, þ.e. herbergið sjálft eða tjaldið.

Þá er það einnig til mikilla bóta að búið er að fjölga gjaldflokkum á þann hátt að nú er verið að ræða um þrjá gjaldflokka. Það eru 300 kr. á tjaldið, 600 kr. á hótelið og síðan 1.000 kr. á gistingu um borð í skemmtiferðaskipi. Mér sýnist, virðulegur forseti, að þetta sé í nokkru samræmi við það sem gerist í öðrum löndum. Það eina sem eftir stendur í þessu sem þarf að huga að til framtíðar er að heimagisting fellur ekki undir þetta. Heimagisting er auðvitað í beinni samkeppni við þessa aðila og ætti því auðvitað að sitja við sama borð og þeir aðilar sem nú taka á sig gistináttaskatt.

Þá hef ég samhliða þessu lagt til eina breytingartillögu umfram þær sem fram koma í áliti og tillögum meiri hlutans sem er á þann veg að helmingur gistináttaskatts skuli renna til sveitarfélaganna í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Sveitarfélögin hafa talað fyrir því lengi að þau þurfi fleiri tekjustofna. Þau ættu kannski að fá allan gistináttaskattinn en ég taldi ekki rétt að ganga alla leið að þessu sinni. Þá má nefna það að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar má einnig finna eftirfarandi málsgrein:

„Samhliða endurreisn ferðaþjónustunnar verður fyrirkomulag gjaldtöku í greininni tekið til skoðunar. Horft verður til þess að breikka skattstofninn og tryggja jafnræði aðila á markaði. Unnið verður að breytingum á fyrirkomulagi gistináttagjalds í samvinnu við greinina og sveitarfélögin með það að markmiði að sveitarfélögin njóti góðs af gjaldtökunni.“

Þarna sýnist mér nú verið að horfa til þess að skoða þetta fyrirkomulag á gjaldtöku og að tryggja jafnræði aðila en ekki síður að sveitarfélögin fái einhverja hlutdeild í þessu þó að þetta sé orðað með svo almennum hætti; að þau muni á einhverjum tímapunkti njóta góðs. En sú breytingartillaga sem ég hef nú lagt fram er því að mínu mati í algjöru samræmi við stjórnarsáttmálann. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að ríkið greiði þennan helming til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem gæti þá úthlutað þessum fjármunum til ýmissa þarfra verkefna sem sveitarfélögin eru að sinna, oft af veikum mætti.

Mig langar að nefna það hér að það er komin fram önnur breytingartillaga sem byggist á því að sveitarfélögin fái hlutdeild í gistináttaskattinum. Hún er á þann veg að skatturinn renni til þeirra sveitarfélaga þar sem tekjurnar verða til. Ég get alveg skilið þetta sjónarmið en það sem ég er að velta fyrir mér er auðvitað það að sveitarfélög geta ekki búið sér til eigin tekjustofna. Þeir eru bara markaðir hér á hinu háa Alþingi. Það er Alþingi sem ákveður hverjir tekjustofnar sveitarfélaganna eru. Ef gistináttaskattur á að verða tekjustofn sveitarfélaga til framtíðar er eðlilegt að þau njóti sama réttar til framlaga úr þessum skatti til jafns við öll önnur sveitarfélög. Það gengur ekki að búa til gjaldstofna fyrir sveitarfélög sem sum fá að njóta en önnur ekki. Þess vegna tel ég eðlilegt ef þessi tillaga verður samþykkt að þetta fari á þann veg að framlag ríkisins úr gistináttaskatti renni inn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem gæti þá ráðstafað þessu til sveitarfélaganna með jöfnum hætti.

Nefndin fékk einnig til fundar við sig aðila vegna áforma í frumvarpinu um að leggja af tollfrelsi vegna skemmtiferðaskipa í svokölluðum hringsiglingum. Þessir aðilar lýstu miklum áhyggjum af þessum áformum. Hringsiglingar hafa hjálpað mörgum byggðum og einhverjar þeirra hafa verið skilgreindar sem brothættar byggðir. Hafnarsjóðir þessara sveitarfélaga hafa haft af þessum hringsiglingum verulegar tekjur en samfélögin hafa einnig notið góðs af þessu með alls konar þjónustu við þá ferðamenn sem koma á land. Þar má nefna veitingahús og ýmsa aðra aðila sem veita ferðamönnum þjónustu. Meiri hlutinn hefur tekið þá ákvörðun að þetta taki gildi en framkvæmd verði frestað fram til næsta árs. Það gefur þá sveitarfélögunum tíma til að laga sig að breyttri stöðu. Þá er einnig brýnt að nýta þann tíma vel sem verður til við frestun gildistöku og bregðast við ef fjárhagsleg neikvæð áhrif verða mikil eins og segir í álitinu.

Þá fékk nefndin einnig til fundar við sig aðila sem flytja inn húsbíla og þeir gerðu athugasemdir við að til hafi staðið að afnema lækkun vörugjalda án fyrirvara. Þessir aðilar hafa notið undanþágu frá hæsta flokki vörugjalda og ákvað nefndin að veita frest á þessari breytingu til haustsins. Ég tek undir þetta og tel að ekki sé rétt að breyta svona hlutum og auka gjaldtöku án nokkurs fyrirvara. Það getur aldrei talist til góðrar stjórnsýslu.

Þá þykir mér vert að nefna 50% lækkun á áfengisgjaldi til lítilla, sjálfstæðra framleiðenda. Það er ekki á hverjum degi sem við sjáum lækkun á tollum eða gjöldum á áfengi og það er vel að þarna sé stigið alla vega eitthvert skref. Það skiptir máli að styðja við lítil sprotafyrirtæki víðs vegar um landið sem eru að fjölga tækifærunum í heimabyggð og skapa þannig vinnu. Landsbyggðin þarf á því að halda að hlúð sé að þeim vaxtarsprotum sem þar finnast, sérstaklega ef við meinum eitthvað með því að halda landinu í byggð. Þessi aðgerð hefur óveruleg áhrif á þær tekjur sem fást af áfengisgjaldi en getur skipt miklu fyrir smáa framleiðendur í heimabyggð. Það er rétt að taka fram að þetta er óverulegur hluti af áfengisframleiðslu í landinu og mun ekki hafa áhrif að mínu mati á drykkju almennt á Íslandi. Vissulega hefur framleiðsla áfengis þau áhrif að það er þá meira framboð en þetta er óverulegur hluti af þeirri framleiðslu sem er til staðar á Íslandi, þannig að mér finnst þetta af hinu góða, að við styðjum við og stöndum með þeim vaxtarsprotum sem finnast úti um allt land.

Þá er í frumvarpinu, virðulegur forseti, tekin ákvörðun um að framlengja virðisaukaskattsívilnun fyrir rafmagnsbifhjól, vetnisbifhjól og létt bifhjól sem ganga fyrir rafmagni um eitt ár þar sem um er að ræða umhverfisvæn farartæki sem eru til þess fallin að draga úr bílaumferð og fjölga í hópi þeirra sem ferðast um á vistvænan hátt. Það vakti athygli mína við að lesa dagblöð í dag að sjá að þar voru auglýsingar um að virðisaukaskattsívilnunin myndi falla niður um áramót og fólk hvatt til að fara að kaupa sér hjól en þær auglýsingar eru orðnar úreltar verði þessi breyting að veruleika.

Síðan en ekki síst er í frumvarpinu verið að leggja til þarfar breytingar til bráðabirgða sem snúa að virðisaukaskatti, tekjuskatti og staðgreiðslu skatta vegna náttúruhamfaranna í Grindavík. Þessar breytingar eru mjög mikilvægar vegna þeirrar stöðu sem uppi er í Grindavík.

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp hefur að mínu mati tekið verulegum jákvæðum breytingum í meðförum nefndarinnar og tel ég það vera merki um góð vinnubrögð að hlustað sé á umsagnaraðila og tekið tillit til þeirra sjónarmiða. Vissulega eru þeir að gæta sinna hagsmuna oft á tíðum en einnig getur verið um að ræða sameiginlega hagsmuni, hagsmuni samfélaganna, og því rétt og eðlilegt að tekið sé tillit til slíkra sjónarmiða. Til þess erum við hér.