154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

Störf þingsins.

[11:50]
Horfa

Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir (P):

Herra forseti. Mér þykir mjög jákvætt að hér höfum við mikið rætt um hvar við getum gert betur í loftslagsmálum og þá sérstaklega í grænum umskiptum. Svo virðist, eins og oft gerist hér, sem við séum bara óvart flest sammála um hvað þurfi að gerast. Nú er stutt til jóla og mig langaði að gefa ykkur öllum sm ájólagjöf áður en við förum; það er lausn við þessu máli og ég hvet ykkur öll til að taka þetta upp á nýju þingári. Í eigendastefnu ríkisins fyrir ríkisfélög kemur þetta m.a. fram:

„Félag skal vinna að þeim samfélagslegu markmiðum sem eigandi stefnir að með eignarhaldinu.“

Þetta er eini textinn sem snertir á því hvert samfélagslegt hlutverk ríkisfyrirtækja er — og já, svo það að auka hagnað. Þessi lög stýra því hvernig Landsvirkjun skal stjórna og hvernig þau taka ákvörðun um orku. Og hverjum kemur það þá á óvart að Landsvirkjun taki ákvarðanir um það hver fái að kaupa orkuna út frá því hver borgar bara besta verðið? Við getum ekki haldið því fram endalaust að orkuskiptin og loftslagsaðgerðir séu bara eitt stórt verðmætasköpunartækifæri. Það koma stundum stundir þar sem við þurfum að sleppa tökum á hagnaðarmarkmiðum okkar og auka frekar hagnað í þágu velferðar. Til að ná markmiðum okkar í loftslagsmálum þurfum við róttækar breytingar á hraða sem samfélagið hefur aldrei séð áður. Þess vegna er hér tækifæri til að setja skýra stefnu um að orku, grunninnihaldsefni alla hagkerfa, sé forgangsraðað til grænna og vistvænna verkefna sem passa upp á framtíðarhorfur næstu kynslóðar.