154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

Störf þingsins.

[12:02]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mér svelgdist á kaffibollanum í morgun þegar ég las viðtal við Katrínu Jakobsdóttur, hæstv. forsætisráðherra, sem birtist á mbl.is í gær undir yfirskriftinni: Ég hef nú sjálf mótmælt. Þar er hæstv. forsætisráðherra spurður í tilefni þess atviks sem varð á ráðstefnu í Háskóla Íslands í síðustu viku þar sem ráðist var að Bjarna Benediktssyni, hæstv. utanríkisráðherra, og kastað yfir hann rauðu glimmeri eða glysdufti eins og ýmsir vilja kalla það. Þarna er hæstv. forsætisráðherra spurður með beinum hætti: Ertu tilbúin að fordæma þessa aðgerð? Hæstv. forsætisráðherra, verkstjóri ríkisstjórnarinnar, svarar, með leyfi forseta: „Mér finnst þessi umræða einmitt ekki eiga að snúast um fordæmingu.“ Ég verð að viðurkenna að ég trúði því hreinlega ekki að hæstv. forsætisráðherra, verkstjóri ríkisstjórnarinnar, væri ekki tilbúinn að fordæma það þegar ráðist er á ráðherra með þeim hætti sem þarna var gert. Í þessu samhengi langar mig til að beina spurningu til. virðulegs forseta hvort hann teldi þá stöðu mögulega í einhverju samhengi að forseti Alþingis myndi ekki fordæma það ef ráðist yrði að óbreyttum alþingismanni með sambærilegum hætti.