154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[14:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vildi bara koma hingað upp og í fyrsta lagi fagna því hvað það eru margir samþykkir þessari breytingu sem er auðvitað liður í því að efla lítil fyrirtæki sem og atvinnurekstur sem hefur sprottið upp víða um land og gera þeim örlítið einfaldara að vera í rekstri. Ég held að við finnum flest fyrir því og þeir gestir sem hingað koma að það er skemmtilegra að fara um landið með þennan atvinnurekstur, sem er ný viðbót. Þess vegna er ég glöð að þetta fari í gegn, að þetta hafi verið sett á dagskrá og við náum þessu fram. Ég tel almennt að það væri mjög hressandi ef oftar væru mál á dagskrá sem lækka skatta og lækka gjöld og það væru svona margir samþykkir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)(Gripið fram í.)