154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

raforkulög.

541. mál
[16:00]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og ég tek undir með hv. þingmanni að ein eða tvær virkjanir munu kannski ekki skipta sköpum á þessum tímapunkti en einhvers staðar þarf að byrja og eins og staðan er núna, til að við ráðum við orkuskiptin sem við viljum sjá gerast hér næstu 10–15 árin, þá þurfum við kannski einhverjar virkjanir upp á 60–90 MW að meðaltali í aukinni orkuframleiðslu á hverju einasta ári til að standast orkuskiptin og það hvert við stefnum í að rafvæða þjóðina. Það er rétt sem hv. þingmaður kemur inn á, við erum með lokað orkukerfi, fulllestað kerfi. Ég tek svo sannarlega undir það. En það sem ég vil kannski rétt koma inn á eru þessar fréttir. Ég var ánægður með viðtal við hv. þingmann í Morgunblaðinu fyrir tveimur dögum. Ég hugsaði: Já, ókei, það er bara svolítil breyting í gangi og við ætlum að fara að drífa okkur í þessu og fara að gera eitthvað. Ég var ánægður með það. En síðan dró kannski svolítið úr því í morgun. Það var viðtal við samflokkskonu hv. þingmanns, Þórunni Sveinbjarnardóttur, og þá greinilega var töluvert óstuð á milli hv. þingmanna Samfylkingarinnar í málinu. Hún segist vera að tala fyrir stefnunni og hún er ekki á sama stað og hv. þingmaður.

Nú vil ég bara spyrja hv. þingmann: Er breyting hjá Samfylkingunni í þessum málum? Þá kannski meira í anda þess sem ég sjálfur hef talað fyrir hér frá því að ég byrjaði á þingi fyrir sjö árum, að við færum í uppbyggingu raforkukerfisins, byggðum upp flutningskerfið og færum síðan kerfisbundið að vinna í málinu vegna þess að þetta er raunverulega mál númer eitt, tvö og þrjú í íslensku samfélagi, á þessum tímapunkti núna, að tryggja raforku. Við ætlum okkur stóra hluti í orkuskiptum og rafvæðingu þjóðarinnar þannig að það væri gott ef hv. þingmaður gæti aðeins útskýrt stöðu mála innan Samfylkingarinnar í orkumálum þjóðarinnar og hvernig þið sjáið þessa framþróun á næstu misserum og árum.