154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

lögheimili og aðsetur o.fl.

542. mál
[20:52]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir áhugaverða ræðu. Ég verð að segja eins og er að þegar ég skoða þetta frumvarp og horfi á 1. gr. segir þar, með leyfi forseta:

„Einstaklingi sem skráður er til lögheimilis í sveitarfélagi án tilgreinds heimilisfangs er heimilt að skrá sérstakt aðsetur sitt í atvinnuhúsnæði sem uppfyllir ekki skilyrði 3. og 4. mgr. 2. gr.“

Hér er verið að heimila fólki að skrá lögheimili sitt í atvinnuhúsnæði. Allir vita að atvinnuhúsnæði er ekki ætlað sem íbúðarhús. Ég verð nú að segja eitt, að mér finnst ákveðin sorg yfir þessu máli, ákveðin sorg, og við erum náttúrlega með brunann sem varð á Bræðraborgarstíg undir. Hér virðist að þetta sé eingöngu gert fyrir slökkviliðið, að slökkviliðið geti vitað af því hversu margir búa í atvinnuhúsnæði. Þetta er greinilega ákveðin redding til þess að ef það kviknar í atvinnuhúsnæði þá geti slökkvilið vitað hversu margir búa í þessu atvinnuhúsnæði, í þessari skemmu, á þessu bílaverkstæði eða hvað sem það er. Það er meira að segja tekið dæmi í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Þegar slökkvilið fer í útkall í orlofshúsnæði gerir það ávallt ráð fyrir því að gestir hafi næturstað í frístundabyggð og að fólk sé mögulega inni í húsi en það á ekki við þegar um atvinnuhúsnæði er að ræða.“

Hér er verið að koma í veg fyrir þetta. Mig langar að spyrja: Finnst hv. þingmanni það forsvaranlegt að fólk geti skráð sig í atvinnuhúsnæði? Er þetta ekki afleiðing af miklu stærra vandamáli sem er það að það er einfaldlega ekki nógu mikið byggt af húsnæði fyrir lágtekjufólk og fyrir þá farandverkamenn og það erlenda vinnuafl sem kemur hingað? Er það ekki þar sem við eigum að taka á málinu en ekki með svona ódýrri reddingu eins og þeirri að fólk megi skrá sig í atvinnuhúsnæði?