154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

lögheimili og aðsetur o.fl.

542. mál
[21:02]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Hér er mikilvægt mál til umræðu, mikilvægt að því leyti að því er ætlað að taka á því vandamáli að þegar bruni eða náttúruhamfarir eiga sér stað í iðnaðarhúsnæði þá er mjög mikilvægt fyrir slökkvilið og aðra viðbragðsaðila að vita hversu margir séu í húsinu, tala nú ekki um ef það er fólk sem býr í þessu húsnæði, húsnæði sem alls ekki er ætlað til þess að búa í, húsnæði sem oft er algerlega óásættanlegt fyrir flesta einstaklinga að búa í. Það er samt, eins og kemur fram í frumvarpinu, mikilvægt að við finnum leiðir til þess að slökkvilið og aðrir viðbragðsaðilar hafi upplýsingar um það hverjir búa á hverjum stað svo að hægt sé að leita að viðkomandi í húsinu ef eldur kemur upp. Þetta er ekki bara í þeim tilvikum þar sem um eld er að ræða heldur er þetta alveg jafn mikilvægt í tilvikum eins og t.d. náttúruhamförum þar sem þarf að rýma heilan bæ, eins og við sáum gerast fyrir rétt rúmum mánuði síðan. Þá er mjög mikilvægt að átta sig á því hvort einhverjir aðilar búi í húsnæði sem ekki er í raun íbúðarhúsnæði því að þegar til rýmingarinnar kemur þurfa viðbragðsaðilar að vita hvar þeir eiga að fara og rýma, hvaða hús á að rýma. Ef eitthvert af þessum húsum er iðnaðarhúsnæði þá getur verið að fólk verði hreinlega eftir. Það er að sjálfsögðu ekki gott mál.

Það er hins vegar að vissu leyti alveg ótrúlega skrýtið með þetta frumvarp að hér er verið að setja á frumvarp til að setja ákveðinn plástur á eitthvað sem er í raun ólöglegt. Það er ólöglegt að leigja fólki út aðsetur í iðnaðarhúsnæði. Það er hreint og klárt ólöglegt. Það eru um 4.000 manns hér á landi sem búa við þessar aðstæður. Þegar við skoðum hverjir það eru sem búa við þessar aðstæður þá kemur í ljós þetta er aðallega fólk sem er að flytjast hingað til lands erlendis frá og fólk sem býr við fátækt, vegna þess að þetta eru einu valkostirnir sem þetta fólk hefur til þess að fá leiguhúsnæði á verði sem það getur borgað. Jafnvel þetta leiguhúsnæði, þessar ósamþykktu íbúðir, oft ekki nema bara herbergi, eru samt leigðar út dýrum dómum. Þetta er mikil tekjulind fyrir þá sem eiga þetta iðnaðarhúsnæði.

Það er í rauninni skrýtið að hér hafi ekki komið fram frumvörp um að hækka sektir og annað til þess að tryggja hreinlega að það sé ekki verið að leigja út þetta húsnæði. En þá er bent á að þetta séu um 4.000 einstaklingar sem búa í slíku húsnæði og að við búum hér við mikinn húsnæðisskort. Það er líka merkilegt að það hefur komið fram í umræðum um önnur mál hér á síðustu dögum þingsins að þegar auglýst var eftir húsnæði til kaups af ríkinu eða af aðilum til að leigja út til Grindvíkinga þá bárust 1.200 tilboð um húsnæði, 1.200 íbúðir sem greinilega eru annaðhvort tilbúnar eða stutt frá því að vera tilbúnar sem hreinlega hafa ekki verið settar á markaðinn vegna þess hvernig vaxta- og verðbólgustig við búum við. Já, það eru til mun fleiri íbúðir en hefur verið sagt frá hér. Og hvernig hefði verið að fara frekar í að skoða hvernig við gætum komið, ja, kannski t.d. helmingnum af þessu fólki inn í eitthvað af þessu húsnæði sem þarna er til?

Já, frú forseti, þetta er alvarlegt mál, að við skulum vera að bjóða fólki upp á það að búa við slíkt skelfingarástand. Það er ekki nóg með að fólk búi í litlum herbergjum sem uppfylla oft alls ekki heilbrigðis- eða brunavarnakröfur heldur megum við ekki gleyma því líka að sveitarfélög eru búin að skipuleggja sig, skipuleggja hvernig sveitarfélagið byggir og lítur út, út frá því að búseta fólks sé í íbúðahverfum en ekki iðnaðarhverfum. Samgöngur eru oftast miðaðar við það að komast úr íbúðahverfunum en ekki endilega að komast úr iðnaðarhverfunum, skólar eru ekki endilega nálægt iðnaðarhverfum og svo mætti lengi telja. Það er ekki nóg með að við séum að bjóða fólki upp á það að vera við skelfilegar aðstæður, við erum líka að byggja upp það að fólk búi á svæði sem er hreinlega ekki með þá þjónustu sem það þarf til þess að geta lifað almennilegu lífi. Maður spyr sig, þegar maður áttar sig á því að þarna búa þeir sem lifa við fátækt og þeir sem eru erlendis frá, hvort við myndum nokkurn tímann láta þetta líðast ef þetta væru ekki útlendingar og fátækt fólk.

Frú forseti. Mig langar líka að tala fallega um þetta frumvarp. Það er von mín að við förum í átak eftir áramót til að tækla þetta vandamál með búsetu í iðnaðarhúsnæði. En mig langar að hrósa nefndinni fyrir að taka tillögu sem kom hér fyrir nokkrum vikum síðan þegar var verið að vinna bráðabirgðafrumvörp í tengslum við Grindavík, þá var lagt til að sú nefnd sem væri að fjalla um þetta ákveðna frumvarp myndi bæta þar inn sérstöku varanlegu ákvæði í lög um lögheimili, um skráningu aðseturs við óviðráðanleg atvik. Mig langar virkilega að hrósa nefndinni fyrir það að hafa tekið þessari tillögu fagnandi og sett hér inn því þetta er mjög mikilvægt verkfæri þegar náttúruhamfarir dynja yfir.