154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

lögheimili og aðsetur o.fl.

542. mál
[21:15]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir.

(Forseti (LínS): Hv. þingmaður, það var ekki búið að kynna þingmanninn í ræðustól.)

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og biðst afsökunar á því að hafa verið aðeins of fljótur á mér að svara hv. þingmanni. Varðandi aðkomu slökkviliðs og fá að koma inn í húsnæði þá hefur það allt með brunavarnaúttektir að ræða og slík öryggismál. Því miður er það þannig að slökkviliðið framkvæmir ekki úttekt á því hvort að húsnæði sé heilsuspillandi eða ekki. En ég er sammála hv. þingmanni, við viljum alls ekki fara mörg ár eða áratugi aftur á bak. Ég veit ekki með það að sofa í fjósinu en það var nú stundum að maður lagði sig í hlöðunni, mun þægilegra en fjósið.