154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða.

507. mál
[21:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Teitur Björn Einarsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða. Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði nýtt kerfi til tekjuöflunar af ökutækjum og eldsneyti með því að taka upp kílómetragjald frá og með 1. janúar 2024 vegna notkunar rafmagns- og vetnisbifreiða annars vegar og tengiltvinnbíla hins vegar, á vegakerfinu.

Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á sinn fund gesti og það bárust umsagnir eins og gengur og gerist og er greint frá því nánar í nefndarálitinu sem liggur frammi. Í umsögnum sem nefndinni bárust var tekið undir þá sýn stjórnvalda að gæta þyrfti jafnræðis við gjaldtöku í vegakerfinu og undir þá grunnhugsun að þeir sem nota vegakerfið skuli greiða fyrir það. Jafnframt kom fram í umsögnum sjónarmið þeirra sem rekja ökutækjaleigur um að fyrirkomulag álagningar kílómetragjalds gæti reynst þeim sérlega snúið. Til að mynda var nefnt að viðmið við áætlun ríkisskattstjóra um meðalakstur væri of hátt. Í þessum efnum öllum vill meiri hlutinn benda á að þrátt fyrir áætlun ríkisskattstjóra sé ökutækjaleigum eins og öðrum gjaldskyldum aðilum heimilt að skrá nýja áætlun í stað þeirrar sem ríkisskattstjóri leggur til. Þá geta ökutækjaleigur eins og aðrir gjaldskyldir aðilar tekið þær bifreiðar sem eru ekki í notkun af skráningarmerkjum og þar með undanskilið sig greiðslu samkvæmt ákvæðum laganna.

Frú forseti. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Fyrst ber að nefna undanþágu vegna bifreiða í eigu björgunarsveita. Þannig er að bifreiðar í eigu björgunarsveita eru skv. 4. gr. frumvarpsins undanþegnar kílómetragjaldi. Í umsögn Slysavarnafélagsins Landsbjargar er lagt til að gildissvið undanþágunnar verði rýmkað þannig að skýrt verði að hún nái til björgunarsveita sem og heildarsamtaka þeirra. Meiri hlutinn tekur undir tillöguna og leggur til samhljóða viðbót við ákvæðið. Að auki leggur meiri hlutinn til orðalagsbreytingu að höfðu samráði við fjármálaráðuneytið þannig að ákvæðið taki til bifreiða sem ætlaðar eru fyrir starfsemi björgunarsveita sem og viðurkenndra heildarsamtaka þeirra.

Frú forseti. Í annan stað er um að ræða fyrirframgreiðslu kílómetragjalds. Nefndinni barst minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneyti þar sem kom fram að brýnt væri að gera breytingar á gjalddaga fyrirframgreiðslu kílómetragjalds þannig að gjalddagi verði fyrsta dag næsta mánaðar og eindagi 14 dögum síðar en ekki fyrsta dag hvers mánaðar líkt og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Í því sambandi er bent á að slík innheimta sé eðlilegri í ljósi þess að gjaldskyldur aðili greiði þá vegna aksturs í mánuðinum á undan en ekki fyrir fram upp í væntanlegan akstur til loka mánaðarins. Breytingin mun jafnframt einfalda innleiðingu kílómetragjalds eftir áramót og auka svigrúm aðila til að bregðast við áskorunum sem fylgja innleiðingunni. Til samræmis er lögð til breyting á ákvæði til bráðabirgða II þannig að gjalddagi fyrsta gjaldtímabils ársins 2024 verði 1. febrúar 2024. Þá skuli áætlun ríkisskattstjóra um meðalakstur bifreiða vegna fyrsta gjaldtímabils ársins 2024 gerð og birt í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda fyrir 1. febrúar 2024. Meiri hlutinn telur tillögu þessa til bóta, bæði varðandi innleiðingu gjaldsins og framkvæmd laganna almennt og gerir hana að sinni.

Frú forseti. Í þriðja lagi er um að ræða atriði er varðar kæruheimildir. Skv. 3. mgr. 19. gr. frumvarpsins er skráning faggiltrar skoðunarstofu á stöðu akstursmælis kæranleg til Samgöngustofu. Þá er í 4. mgr. sömu greinar kveðið á um að heimilt sé að kæra úrskurð Samgöngustofu til ráðherra. Í umsögn Samgöngustofu kom fram að umrædd kæruheimild væri óþörf enda væri stofnuninni heimilt að leiðrétta augljósar skráningarskekkjur á stöðu akstursmælis að höfðu samráði við gjaldskyldan aðila eða samkvæmt beiðni hans, sbr. 7. mgr. 8. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn tekur undir þetta sjónarmið og bendir á að ákvörðun Samgöngustofu er í eðli sínu stjórnvaldsákvörðun og við töku slíkrar ákvörðunar væri stofnunin því bundin af málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar. Með hliðsjón af framangreindu leggur nefndin því til að 3. og 4. mgr. 9. gr. falli brott.

Frú forseti. Varðandi það sem snýr að lögveði og fjárnámi þá gerir nefndin einnig breytingar. Þannig er að skv. 21. gr. frumvarpsins hvílir kílómetragjald og vanskráningargjald ásamt dráttarvöxtum og innheimtukostnaði sem lögveð á hlutaðeigandi bifreið. Í umsögnum komu fram áhyggjur um að álitamál kunni að skapast vegna þessa þar sem algengt er að ökutæki skipti ört um hendur. Þá er í minnisblaði ráðuneytisins nokkuð fjallað um lögveðsheimildir í öðrum lögum vegna vangoldinna opinberra gjalda. Með hliðsjón af því sem þar kemur fram telur meiri hlutinn ekki óeðlilegt að kílómetragjald og vanskráningargjald sé tryggt með lögveði á hlutaðeigandi bifreið en hins vegar tekur meiri hlutinn undir þá athugasemd sem hefur borist að erfitt getur orðið í framkvæmd fyrir nýjan eiganda ökutækis að vita hvort lögveð hvíli á bifreiðinni. Til að bregðast við þessu leggur meiri hlutinn til, í samræmi við það sem jafnframt kemur fram í minnisblaði ráðuneytisins til efnahags- og viðskiptanefndar, að lögveð falli niður við eigendaskipti hafi hinn nýi eigandi hvorki vitað né mátt vita um lögveðið. Á þessi breyting sér samsvörun í umferðarlögum.

Þá leggur nefndin til breytingar í kafla um tímabundna undanþágu ökutækjaleigna frá álagi skv. 6. mgr. 10. gr. Í þessari grein er kveðið á um álag sem skal lagt á mismun sem stafar af of lágri fyrirframgreiðslu kílómetragjalds. Með sama hætti skal bæta 2,5% álagi á ársgrundvelli á mismun sem á rætur að rekja til of hárrar fyrirframgreiðslu. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að slíkt álag kynni að vera íþyngjandi fyrir ökutækjaleigur samkvæmt lögum um leigu skráningarskyldra ökutækja á fyrstu mánuðum álagningar gjaldsins, enda væru líkur á því að þær sættu íþyngjandi álögum vegna vanáætlunar gjaldsins á meðan ekki væri komin reynsla á áætlanagerð þeirra. Leggur meiri hlutinn því til breytingu þess efnis að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða sem kveði á um undanþágu ökutækjaleigna frá ákvæðinu sem gildi til 30. júní 2024. Annarra breytinga sem meiri hlutinn leggur jafnframt til að höfðu samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið og Skattinn vísa ég nánar til í nefndaráliti.

Frú forseti. Að framansögðu virtu leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Undir álit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Jóhann Friðrik Friðriksson, Ágúst Bjarni Garðarsson, Steinunn Þóra Árnadóttir og Njáll Trausti Friðbertsson.