154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[11:24]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir sína ræðu. Fyrirvarinn í meirihlutaáliti nefndarinnar snýr að því að áhersla er lögð á að vilji löggjafans sé að aðlögun flugrekstrar að viðskiptakerfinu ljúki 1. janúar 2027. Þegar við vorum með málið til umfjöllunar fengum við góða umsögn Icelandair um aðgengi að sjálfbæru flugvélaeldsneyti. Það eru ekki nema þrjár, fjórar vikur síðan vél Virgin Atlantic flaug frá London til Bandaríkjanna á sjálfbæru eldsneyti í fyrsta skipti yfir Atlantshafið. Reyndar voru bara flugmenn um borð, kostnaðar var svo sem ekki getið en maður fékk svona upplýsingar um að hann væri kannski áttfaldur á við verðið í dag. En með aðgengið að þessu þá komu fram áhyggjur hjá Icelandair um þennan tímapunkt. Það kom fram hjá hv. þingmanni að talað væri um þriggja ára aðlögun, sem mér finnst mjög stuttur tími, og svo yrði allt farið. Ég hef smáefasemdir um að þetta takist. Ég held að einhvers konar aðlögun þurfi að vera lengur en það. Þá snýr þetta svolítið að því, og Icelandair er kannski að benda á það, hversu nauðsynlegt það er að í Keflavík verði aðgengi að þessu sjálfbæra flugvélaeldsneyti, SAF, til að halda uppi samkeppnishæfni og nýta og fá endurgreiðslu samkvæmt kerfinu og eitthvað slíkt. En til þess að framboð verði af því, er þá ekki skynsamlegast að það eldsneyti geti orðið til hér innan lands með grænni orkuframleiðslu? Til að það geti gengið eftir, þarf þá ekki að virkja meira og framleiða meira af grænni orku í landinu? Það voru hundruð megavatta sem bara Icelandair var að tala um miðað við hvernig þetta gæti þróast á tiltölulega skömmum tíma varðandi flugvélaeldsneytið, íblöndunina og allt það. Þetta hangir svolítið saman við íslenska hagsmuni.