154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[11:32]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína og það að hún gerði grein fyrir fyrirvara sínum við nefndarálit meiri hlutans, sem er mjög gott. Mig langar að spyrja varðandi aðlögunina. Nú fær Ísland aðlögun út árið 2026 og það segir, með leyfi forseta, í nefndaráliti meiri hlutans:

„Sú aðlögun sem samið var um tryggir samkeppnishæfni flugrekenda hér á landi út árið 2026 og var talin nauðsynleg vegna landfræðilegrar legu Íslands og mikilvægi flugsamgangna fyrir þjóðarbúskapinn.“

Þegar ég les þetta sé ég að búið er að tryggja aðlögun út árið 2006 og tryggja samkeppnishæfnina. Hvað gerist eftir árið 2026? Ég get ekki séð að það sé búið að tryggja samkeppnishæfni flugrekanda eftir árið 2026 og hún var talin nauðsynleg vegna landfræðilegrar legu Íslands. Sú landfræðilega lega er ekki að fara að breytast og mikilvægi flugsamgangna fyrir þjóðarbúskapinn er ekki að fara að breytast. Ég get því ekki séð annað en að hér sé verið að sparka dósinni á undan sér, eins og sagt er á enskri tungu. Líka er talað um ystu svæði og talað er um það í nefndarálitinu að t.d. Kanaríeyjar séu ysta svæðið innan Spánar. Það er talað um ystu svæði hér á landi. Ég get ekki séð annað en að landið sjálft, Ísland, eigi að flokkast með ystu svæðum. Það er heldur ekki hægt að bera okkur saman við Möltu og Kýpur þegar kemur að þessari aðlögun. Malta er í miðju Miðjarðarhafinu, þar er gríðarleg skipaumferð og flugsamgöngur og sama gildir um Kýpur. Spurning mín er þessi: (Forseti hringir.) Er ekki bara verið að fresta því að tryggja samkeppnisstöðu Íslands fyrir árið 2027 og þá verði slagurinn tekinn aftur?