154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[13:28]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Þegar tíminn kláraðist var ég byrjaður að ræða þetta svokallaða græna eldsneyti sem stendur til að stuðla að að verði notað í flugi og er bara 0,1%, eins og kom fram hér áðan, af þotueldsneyti eins og stendur og áttfalt dýrara en hefðbundið þotueldsneyti. Það var gefið í skyn eftir fund þeirra hæstv. forsætisráðherra og Ursulu von der Leyen að Ísland hefði náð einhverjum — það væri hluti af samningnum, hinum mikla samningi, að Ísland fengi þá niðurgreiðslu á þessu græna eldsneyti. Þetta var ekkert sérstakt fyrir Ísland og lá alltaf fyrir að það ætti að vera svona. En aðalatriðið er þó það að þessi niðurgreiðsla er eingöngu til þess ætluð að koma verðinu í svipað horf og verðið á hefðbundnu eldsneyti og því er ekki um neinn styrk að ræða eða neinn samdrátt í kostnaði frá því sem nú er og eins og ég nefndi er mjög óljóst hversu vel muni ganga að framleiða meira af slíku eldsneyti. Ef það er framleitt erlendis er það líklega að miklu leyti framleitt á óumhverfisvænan hátt og orkuskortur hér auðvitað mjög þekktur. Það var ekkert í þessu samkomulagi annað en þessi frestun að hluta til á áhrifunum sem höfðu verið sögð svo skelfileg og eru það. Ég geri mér grein fyrir því að Evrópusambandið og starfsmenn þar, bírókratar, eru kannski ekkert frægir fyrir kímnigáfu en ég ímynda mér þó að einhver hljóti að hafa hlegið í Brussel þegar komið var og tilkynnt að Íslendingarnir hefðu gleypt bæði öngulinn og sökkuna varðandi þessi áform um að leggja þessi nýju gjöld á íslenskan almenning sem vill ferðast til útlanda.

Það er ekki bara niðurstaðan núna sem er áhyggjuefni. Það sem er ekki síður áhyggjuefni er að með þessu er opnað á að Evrópusambandið þrói þetta bara áfram á þann hátt sem það vill. Meira að segja hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson nefndi hérna áðan að við vissum ekkert hvað kæmi, þetta væri bara í þróun. En þegar við verðum búin að bíta á agnið, eins og reynt er að koma í gegnum Alþingi núna, þá getur Evrópusambandið bara þróað þetta áfram að vild. Gjöldin geta hækkað og reglurnar herst o.s.frv. Það er ekki bara verið að gefa eftir núna og valda því mikla tjóni sem blasir við, það er verið að opna á það að Evrópusambandið stjórni okkur í auknum mæli og taki þá ákvarðanir án tillits til íslenskra aðstæðna. Það er nú einmitt vandinn í þessu og svo mörgum öðrum Evrópumálum að það er ekki litið til aðstæðna á Íslandi og þess sem hentar okkur en ríkisstjórnin steypir sér engu að síður bara út í fenið, og landinu.

Þessi áform sem þetta allt byggist á og Evrópusambandið kallar „Fit for 55“ — frú forseti, ég verð bara að nota þetta erlenda heiti því að ég hef ekki séð að íslensk stjórnvöld hafi haft fyrir því að þýða það — eru auðvitað miklu víðtækari en nemur bara flugmálunum, ganga út á það að refsa fólki fyrir að vera til á hinum ýmsu sviðum. En þetta er líka stefna sem markast af ákveðinni öfgahyggju. Fremur en að litið sé á innihaldið og raunveruleg áhrif þá hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að það þurfi bara að gera eitthvað sem fólk finnur fyrir til þess að virðast vera að taka á loftslagsmálum. Þessi blinda nær svo langt að í þessum áformum er m.a. gert ráð fyrir að flugvélar megi ekki hafa meira eldsneyti en akkúrat það sem þarf til að komast á áfangastað. Á síðustu dropunum eiga flugvélarnar að lenda á áfangastað til að þær beri ekki of mikið eldsneyti, eða að kaupa eldsneyti utan þessa Evrópusvæðis vegna þess að það kann að vera á hagkvæmara verði. Viljum við þetta, frú forseti, fljúga í flugvélum sem hafa ekki nægt eldsneyti nema bara rétt til að komast á áfangastað?