154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[13:33]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég ætla að halda áfram umfjöllun minni um umsögn PCC á Bakka þar sem segir, með leyfi forseta:

„Umtalsverður kostnaður fylgir þar af leiðandi því að koma vörum PCC Bakka á áfangastað erlendis, sem eingöngu er hægt sjóleiðina, þ.m.t. í upphafi með siglingum milli hafna hérlendis, sem nema umtalsverðum vegalengdum.“

Og segir svo áfram þegar fjallað er um þetta ystusvæðaregluverk:

„Telja verður því að rökstyðja megi að sambærileg sjónarmið ættu að gilda hérlendis og gilda um siglingar á ystu svæðum ESB. Þannig ætti sambærileg tímabundin undanþága (t.d. til ársins 2030) að gilda varðandi sjóflutninga á milli t.d. Reykjavíkur og Húsavíkur annars vegar og Reykjavíkur og Seyðisfjarðar hins vegar og gilda t.d. á milli Kanaríeyja og Valencia, Lanzarote-Fuerteventura og/eða Gvadelúpeyjar-Martiník.“

Þetta er ekki ósanngjörn sýn sem sett er fram. Í þessu samhengi vil ég rifja upp samtal sem átti sér stað milli þáverandi hæstv. utanríkisráðherra, Þórdísar Kolbrúnar Gylfadóttur, og formanns Miðflokksins, hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, 6. mars síðastliðinn í umræðu um viðbrögð stjórnvalda við loftslagsáætlun ESB. Þar sagði hæstv. utanríkisráðherra þess tíma, með leyfi forseta:

„Ég sagði skýrt í þessu viðtali“ — og vísar þá í viðtal sem hún hafði ef ég man rétt farið í hjá Morgunblaðinu. — „Ég sagði skýrt í þessu viðtali og hef sagt það áður að við munum ekki standa að því að innleiða regluverk sem mun stórkostlega skaða hagsmuni Íslands.“

Þarna var hæstv. ráðherra fyrst og fremst að tala um flughluta þessa regluverks alls en hlutfallslega eru áhrifin ekkert síður alvarleg hvað siglingarnar varðar. Og þessi orð hæstv. ráðherra, með leyfi forseta: „Ég hef sagt alveg skýrt að ég mun ekki tala fyrir því að innleiða regluverk sem mun skaða hagsmuni Íslands stórkostlega …“ — þessi orð falla í mars síðastliðnum. Síðan í tengslum við Evrópuhátíðina er öllu kyngt og í millitíðinni tekin ákvörðun að sækja ekki undanþágurnar sem standa til boða hvað varðar siglingar og sjóflutninga. Þetta er alveg með hreinum ólíkindum.

Síðan er tekin ákvörðun um að kyngja þessu furðulega samkomulagi sem gert er í ráðherrabústaðnum í aðdraganda Evrópuhátíðarinnar í Hörpu sem setur flugfélögin í þá stöðu að mæta kerfinu eins og það er 1. janúar 2027 og setur skipafélögin í þá stöðu að kerfið mætir þeim eins og það er strax bara núna um áramótin enda, eins og ég fór inn á í þarsíðustu ræðu minni, er Eimskipafélagið þegar búið að senda viðskiptavinum sínum tölvupóst, gerði það í fyrradag, með hækkuðu verði og áður var búið að tilkynna um fækkun viðkomuhafna. Ég man ekki hvort það var ein viðkomuhöfn sem datt út eða hvort það voru fleiri en í öllu falli samdráttur í þjónustu, færri viðkomuhafnir erlendis sem hækka þá verð á þeim enda hjá þeim fyrirtækjum sem nýttu þá höfn á fyrri stigum, hærri kostnaður vegna ETS-gjaldanna, það er bara sérstök gjaldskrá vegna þeirra gjalda. Þetta er allt með slíkum ólíkindum þegar haft er í huga með hvaða hætti ráðherrarnir töluðu hér fyrr á þessu ári og ég mun nú fara í gegnum það í seinni ræðum og rifja aðeins upp í fyrsta lagi hversu alvarleg mynd var dregin upp af því sem nú þykir allt í lagi að kyngja, bara aðeins seinna, og síðan með hvaða hætti yfirlýsingar voru gefnar um að það kæmi ekki til greina að innleiða regluverk sem væri jafn mótdrægt íslenskum hagsmunum og hér er síðan að koma í ljós og blasti við þá.

Hvað breyttist í millitíðinni er ekki alveg ljóst en ég mun í næstu ræðu minni halda áfram að fjalla um ystusvæðamál og umsögn PCC á Bakka því að þetta skiptir máli gagnvart starfsemi á landsbyggðinni. Við verðum að hafa það í huga að þau áhrif — við erum hér dagana langa að reyna að styðja við það að atvinnuuppbygging á landsbyggðinni geti verið með eins haganlegum hætti og nokkur kostur er en síðan renna í gegn mál eins og þetta, hálfórædd (Forseti hringir.) vegna þeirrar tímapressu sem þingið var sett í, þar sem útilokað er að glöggva sig á raunverulegum áhrifum nema þá með aðstoð svona (Forseti hringir.) góðrar umsagnar eins og kemur hér frá PCC.

Ég vil vinsamlegast óska eftir því að vera settur á mælendaskrá aftur.